Skólareglur Hríseyjarskóla

Skólinn byggir reglur sínar á jákvæðni.

Markmið með reglunum er að skapa öllum sem vinna í skólanum vellíðan og öryggi.

———————————————————————————————————————————————————————————

Skólareglur

Ástundun og stundvísi.

• Verum stundvís, jákvæð og gerum okkar besta.
• Virðum vinnufrið í kennslustundum

Stundvísi. Mikilvægt er að nemendur komi á réttum tíma í kennslustundir. Ætlast er til að foreldrar
hringi og tilkynni veikindi og/eða seinkomur. Ef um lengri leyfi er að ræða en einn dag þarf að hafa
samband við skólastjóra. Fjarvist er heimilt að gefa, mæti nemandi eftir að 15 mínútur eru búnar af
kennslustundinni. Yfirlit yfir ástundun nemenda er hægt að nálgast á Fjölskylduvef Mentors.
Nám. Nám er vinna sem ætlast er til að nemendur skili af sér, jafnt í skóla sem heima. Kennarar vinna
að því í samráði við forráðamenn að nemendur virði kennslustundir sem dýrmætan vinnutíma.
Kennari fylgist með námsframvindu og hegðun nemenda sinna og gerir ráðstafanir í samræmi við
skólareglur ef út af ber.

Brot. Ef nemandi verður uppvís að skila verkefni og/eða ritgerð, sem aðrir hafa samið, fær
viðkomandi einkunnina núll fyrir verkefnið og eru foreldrar/forráðamenn upplýstir um málið. Það
sama á við ef nemandi verður uppvís að því að svindla á prófum.

Framkoma.

• Við erum kurteis og sýnum hvert öðru tillitsemi og kurteisi.

Framkoma: Það er sameiginlegt markmið skólans og heimilanna að rækta með börnum og unglingum
almenna kurteisi og viðurkenndar samskiptareglur manna í milli.
Við komum fram við aðra, eins og við viljum að aðrir komi fram við okkur. Ef nemandi er staðinn að
því að skaða aðra nemendur, eyðileggja vinnu eða leiki er hann tekinn úr aðstæðum og úrræði fundin
til bóta.
Yfirhafnir. Við erum ekki með höfuðföt, utanyfirflíkur, o.þ.h. í kennslutíma, í matsal eða á sal skólans,
nema með sérstöku leyfi.

Umgengni.
• Göngum vel og snyrtilega um skólann, eigur hans, okkar og annarra og stofnum ekki öryggi
fólks í hættu.

Umgengni. Nemendur temji sér góða umgengni í skólanum, s.s. í skólastofunni, matsal, á göngum og
skólalóð. Ef nemandi veldur vísvitandi eða vegna alvarlegs gáleysis skemmdum á eignum skólans eða
annarra í skólanum, er hann bótaskyldur og málinu er vísað til skólastjóra
Öryggi. Allir eiga rétt á að finna til öryggis í skólanum. Framkoma og hegðun nemenda og starfsfólks skal vera þannig að hún ógni ekki öryggi annarra. Mæti nemandi með eldfæri, hníf eða önnur skaðleg verkfæri, sem getur skaðað hann sjálfan eða aðra í skólanum, verður það umsvifalaust tekið af honum og einungis foreldrar geta endurheimt slíka hluti.
Skólalóð. Við yfirgefum ekki skólalóðina á skólatíma nema með leyfi. Komi nemandi á hjóli, hjólaskautum, hjólabretti, skulu hjálmar notaðir.
Fatnaður. Nauðsynlegt er að merkja allar yfirhafnir og skófatnað. Skólinn tekur ekki ábyrgð á því ef skór, fatnaður eða aðrar eigur nemenda hverfa úr skólanum. Það sama gildir ef peningar eða önnur verðmæti hverfa t.d. úr yfirhöfnum eða töskum. Reglan er að nemendur beri ábyrgð á eigum sínum í skólanum.

Síma og netnotkunn

• Notkun GSM síma hjá nemendum er óheimil á skólatíma,
• Nemendur hafa aðgang að tölvum

Símar skulu geymdir í skólatöskum þar til skóla lýkur, nema í þeim tilgangi að þeir styðji við nám og kennslu.. Brjóti nemendur þessa reglu þá verða símar teknir og geymdir í vörslu starfsfólks þar til skóla lýkur.
Hvers kyns mynd- og hljóðupptökur innan skólans eru með öllu óheimilar, nema í þeim tilgangi að hún styðji við nám og kennslu.
Tölvur er heimilt að nota í námslegum tilgangi, önnur notkunn er ekki heimil nema með sérstöku leyfi. Nemendum er heimilt að koma með eigin tölvur í skólann. Skólinn tekur ekki ábyrgð á því ef tölvum er stolið eða þær skemmdar.

Heilbrigði

• Við hugsum vel um heilsu okkar
• Höfum með okkur hollt nesti

Heilsa. Nemendur hugsi vel um heilsu sína og temji sér að borða hollan og góðan mat. Sælgæti og neysla gosdrykkja er bönnuð í skólanum á skólatíma, nema í sérstökum undantekningatilfellum að mati kennara.
Tóbak, áfengi og ólögleg vímuefni. Verði nemandi staðinn að því að neyta tóbaks og eða áfengis á skólatíma, á skemmtunum eða í ferðum á vegum skólans, er málinu vísað strax til umsjónarkennara og skólastjóra og foreldrar/forráðamenn látnir vita. Brot geta varðað brottvísun úr skóla tímabundið á meðan unnið er í hans málum.

Almenn viðbrögð við agamálum
Kennari ræðir við nemendahópinn um skólareglurnar og viðbrögð við agamálum og gerir hann samábyrgan fyrir góðum bekkjaranda og hvetjandi námsumhverfi. Kennari tekur á agamálum inni í bekk.
1. stig
Ef það kemur í ljós að einstaklingur er ábyrgur fyrir truflun í kennslustund eða gerist á annan hátt brotlegur við skólareglurnar, ber kennara að ræða við nemandann einslega. Nemanda gefst tækifæri til að leiðrétta og bæta fyrir brot án frekari beitingar viðurlaga. Kennari, umsjónarkennari eða annar starfsmaður skólans geta aðstoðað nemandann við að leysa úr sínum málum.
2. stig
Breyti nemandi ekki hegðun sinni eða við ítrekuð brot þá lætur kennari foreldra/forráðamenn og umsjónarkennara vita um vandann og óskar eftir að þeir taki þátt í lausn hans.
3. stig
Beri samstarf við foreldra/forráðamenn ekki árangur leitar kennari eftir samstarfi um lausn þess við umsjónarkennara. Hægt er að vísa máli nemandans til námsráðgjafa (skólaskrifstofa). Ef vísa þarf málum til sálfræðings skólans (skólaskrifstofa) er slíkt gert með samþykki foreldra/forráðamanna.
4. stig
Náist ekki árangur máls í meðförum umsjónarkennara, skal vísa málinu til skólastjóra sem ræðir við nemandann og áminnir um leið og hvatt er til betri hegðunar. Láti nemandi ekki skipast við áminningar skólastjóra, kallar skólastjóri foreldra/forráðamenn til fundar, þar sem reynt er að komast að sameiginlegri niðurstöðu um hvernig best er að leysa vandann.
5. stig
Ef ekki tekst að finna lausn á vanda nemandans og ef hegðun hans kemur í veg fyrir eðlilegt skólastarf getur skólastjóri vísað honum úr skóla tímabundið, meðan reynt er að finna lausn á vanda nemandans (sbr. 14. gr í lögum um grunnskóla nr. 91/2008). Skólastjóra ber að ræða við foreldra/forráðamenn áður en gripið er til slíkrar brottvísunar og hún tilkynnt til Fræðsluskrifstofu.
Ef ekki tekst að leysa vanda nemanda innan skóla á viku, vísar skólastjóri málinu til Fræðsluyfirvalda. Fræðsluyfirvöld bera ábyrgð á að tryggja nemenda skólavist innan hæfilegs tíma frá brottvísun.
Ítrekuð brot

Ef nemandi brýtur ítrekað skólareglur, er ekki sjálfgefið að hann fái að fara í ferðalög á vegum skólans. Skólastjórnendur skulu gera nemanda og foreldrum/forráðamönnum grein fyrir slíkum viðurlögum og nemanda jafnframt gefinn kostur á að bæta hegðun sína þannig að ekki þurfi að beita áður nefndum viðurlögum.
Skýr mörk

Við alvarleg agabrot getur komið til brottvísunar án áminningar. Komi brottvísun til framkvæmda eiga nemandi og forráðamenn hans rétt á andmælum samkvæmt 13. grein stjórnsýslulaga nr. 37/1993.
Skólareglurnar voru endurskoðaðar í mars 2014 og birtast í skólanámsskrá Hríseyjarskóla á heimasíðu skólans.
———————————————————————————————————————————————————————————

Ástundun

Öll ástundun er skráð í Mentor, ástundun nemenda ræður skólaeinkunn þeirra. Það byrja allir með 10 í skólaeinkunn í upphafi annar.  Það að læra ekki heima, gleyma bók, koma of seint og fleira gefur ákveðinn fjölda punkta sem segir til um nemendaeinkunn í lok annar.                             

Skráningar eru sem hér segir:

Veikindi …………..0                               Vinnur ekki í tíma ……………….1

Leyfi ……………….0                             Óhlýðnast starfsmanni ………….1

Of seint …………….1                             Er þreyttur í skólanum …………..0

Fjarvist …………….3                              Er ekki með nesti ……………….0

Gleymdi bók ………..1                             Vann ekki heima ………………..1

Hirðuleysi…………..0                              vísað út úr tíma ……………………..3

Komi nemandi í tíma eftir að kennsla hefst telst hann mæta of seint.

Nemendaeinkunn

Punktar                        Nemendaeinkunn           Punktar             Nemendaeinkunn                      

0 – 2                             10,0                              39 – 42                                     5,0

3 – 6                             9,5                                43 – 46                                     4,5

7 – 10                           9,0                                47 – 50                                     4,0

11 – 14                         8,5                                51 – 54                                     3,5

15 – 18                         8,0                                55 – 58                                     3,0

19 – 22                         7,5                                59 – 62                                     2,5

23 – 26                         7,0                                63 – 66                                     2,0

27 – 30                         6,5                                67 – 70                                     1,5

31 – 34                         6,0                                71 eða fl.                                  1,0              
35 – 38                         5,5

Á tveggja vikna fresti birta umsjónakennarar nemendum sínum stöðu þeirra, þannig að hver og einn geti fylgst nákvæmlega með sinni nemendaeinkunn.

Ef punktafjöldi nemanda er orðinn 15  hefur umsjónarkennari samband við forráðamenn viðkomandi.

Nemandi getur sótt um hækkun á nemendaeinkunn. Nemendaeinkunnin hækkar þá um 0,5 við hverja viku sem skólasókn er óaðfinnanleg frá umsókn um hækkun.

Aðeins er hægt að sækja um hækkun einu sinni á önn.

Punktakerfið á við alla nemendur skólans. Þau viðurlög sem tilgreind eru samkvæmt punktakerfi gilda aðeins fyrir 5. – 10. bekk.