Nemendur Hríseyjarskóla heimsóttu hollensku eyjuna Vlieland

Nemendur í 6. – 10. bekk Hríseyjarskóla hafa undanfarin 3 ár tekið þátt í Erasmus+ verkefninu Islands Schools ásamt Háskólanum á Akureyri og öðrum menntastofnunum í Hollandi, Grikklandi, Skotlandi og á Spáni. Tilgangur verkefnisins er að tengja litla eyjaskóla um alla Evrópu saman og finna í sameiningu leiðir til nýsköpunar og leitað lausna á vandamálum eyjasamfélaga og skapa um leið spennandi námstækifæri. Hríseyjarskóli hefur unnið náið með grunnskólanum De Jutter sem er á hollensku eyjunni Vlieland, á síðasta skólaári voru unnin verkefni um plastefni í hafi og komu hollensku nemendurnir ásamt kennurum sínum í heimsókn til Hríseyjar í maí 2022. Núna í mars hófst 8 vikna samvinna milli skólanna og var sjálfbær ferðaþjónusta tekin fyrir og hafa nemendur fræðst um sjálfbærni og unnið fjölbreytt verkefni með hollenska skólanum. Hápunktur verkefnisins var svo þegar Hríseyjarskóli heimsótti hollenska skólann 8.-10. maí sem var jafnframt lokaáfangi verkefnisins hvað nemendur varðar. Í framhaldinu munu háskólarnir fimm funda og taka saman helstu niðurstöður og útbúa heimasíðu þar sem aðrir fámennir eyjaskólar allstaðar í heiminum geta parað sig saman og unnið verkefnin sem við tilraunaskólarnir 5 erum búin að prófa.

Söfnun fyrir Hollandsferðinni hefur staðið yfir í allann vetur og þökkum við enn og aftur öllum þeim sem hafa styrkt okkur og lagt sitt að mörkum við fjáraflanir fyrir þessari ferð. Það er ekkert sjálfgefið að vera lítill skóli og fljúga með 9 nemendur alla leið til Hollands, því skiptir hver króna miklu máli. Takk fyrir að styrkja okkur og sýna þessu verkefni áhuga.

 

Nemendur skrifuðu eftirfarandi samantekt um ferðalagið til Hollands:

Við lögðum af stað í þetta skemmtilega ferðalag sunnudaginn 7. maí. Við tókum ferjuna klukkan eitt og þá hófst ferðin suður. Við gistum á hóteli í Keflavík, vöknuðum síðan klukkan hálf fjögur til að fara að fá okkur að borða því við áttum flug u.þ.b klukkan 8 um morguninn. Þegar við vorum búin að fljúga í þrjá klukkutíma og komum til Amsterdam biðu okkar tveir minibusar. Við keyrðum á McDonald’s og borðuðum þar. Síðan keyrðum við í bæ sem heitir Harlingen og fórum aðeins að versla. Við fórum síðan þaðan með ferjunni til Vlieland sem tók 95 mínútur. Nemendur og kennarar De Jutter tóku á móti á okkur á bryggjunni og fylgdu okkur á tjaldsvæðið, við spjölluðum saman og komum okkur fyrir í húsunum sem við gistum í.

Þriðjudagurinn var aldeilis eftirminnilegur þar sem hollensku konungshjónin heimsóttu Vlieland þennan dag og við hittum þau í skólanum. Um morguninn mættum við í skólann og fengum þar morgunmat, kynningarferð um skólann og fórum síðan í verkefnavinnu. Í verkefnavinnunni var útskýrt hvernig verkefnið væri og hvernig við ættum að vinna það. Við fengum blöð með skrefum og fyrsta skrefið var að finna út hvaða part af eyjunum við viljum vernda það komu tillögur eins og að vernda varpsvæði fugla, gönguleiðir og skóga. Skref 2 var að tala saman um hvað væri nú þegar verið að gera til að vernda náttúruna á eyjunum og skref 3 var að koma með 10 lausnir til að vernda náttúruna og sumir hópar voru með fleiri lausnir en það. Við komumst að því að eyjarnar eru frekar ólíkar t.d. er ekki hægt að vera með sólarpanela í Hrísey og ruslið er ekki flokkað á Vlieland. Um hádegisbil fór fjölmiðlafólk að mæta á svæðið og fyrir utan skólann söfnuðust íbúar og ferðamenn. Þegar konungshjónin mættu á svæðið fórum við út og mynduðum röð ásamt öllum nemendum De Jutter. Það var mikil upplifun að taka á móti þeim og sjá hversu miklu máli heimsóknin skipti heimamenn. Við fórum aftur upp að vinna og skömmu síðar litu konungshjónin við í tíma hjá okkur og spurðu okkur út í verkefnið – myndbrot frá spjallinu kom í hollensku fréttunum um kvöldið (byrjar á 9:40) og í story á instagram síðu konungshjónanna.

Við fengum síðan frítíma fram að kvöldmat, einhverjir fóru að versla, aðrir fóru í fótbolta, aðrir fóru í göngu. Hollendingarnir buðu okkur út að borða um kvöldið veitingastað á tjaldsvæðinu og fengu allir pizzu. Eftir matinn fengum við að fara í sund og síðan aftur í frjálsan tíma, sumir lásu, aðrir fóru út og sumir fóru aftur á veitingastaðinn að horfa á fótbolta og Eurovision.

Á miðvikudeginum fórum við í morgunmat í skólanum og síðan héldu hóparnir kynningar á sínum hugmyndum. Það gekk hratt og vel fyrir sig og við fengum auka frjálsan tíma og gengum síðan saman niður á strönd og fórum í ferð með trukk sem keyrði okkur eftir ströndinni og stoppaði við safn með rusli sem skolað hefur á land á eyjunni.

 

 

 

 

 

 

Eftir ferðina fengum við frjálsan tíma, það fóru margir að græja sig fyrir ball og einhverjir fóru að versla. Við fengum síðan kvöldmat í skólanum og mættum á glimmerballið sem þau höfðu undirbúið fyrir okkur. Við þurfum síðan að pakka og fara snemma að sofa. Á fimmtudeginum vöknuðum við klukkan fimm til að fara í ferjuna frá Vlieland. Eftir það var okkur keyrt á flugvöllinn í Amsterdam, flugum til Keflavíkur og þaðan með rútu til Reykjavíkur á KFC. Á leiðinni norður stoppuðum við á Blönduósi, borðuðum og náðum að fylgjast aðeins með undanúrslitum Eurovision. Síðan héldum við bara af stað og vorum komin á Árskógssand klukkan 23 og beint í ferju og þá var ferðinni lokið.

Það skemmtu sér allir mjög vel og eiga eftir að muna eftir þessari skemmtilegu ferð.

Þemavinna um flugvélar í 1. – 3. bekk

Í síðustu viku luku nemendur í 1. – 3. bekk flugvélaþema. Þau unnu út frá bókinni Flugvélar en bókinni er ýmiss konar fróðleikur um flugvélar og mikið lagt upp úr ljósmyndum og teikningum sem styðja við textann og vekja áhuga og forvitni.

 

Þau unnu mörg verkefni og teiknuðu meðal annars sína eigin flugvél og gerðu eina stóra saman.

Dagur líkamsvirðingar

Dagur líkamsvirðingar var þann 13. mars og í tilefni þess óskaði heilsuráð eftir því að allir nemendur og starfsmenn Hríseyjarskóla myndu skrifa eitthvað jákvætt um líkama á miða og skila inn. Þátttaka var góð og einnig sköpuðust mikilvægar samræður um málefnið. Í samveru á föstudagsmorgninum voru miðarnir síðan lesnir upp og síðan hengdir upp á vegg.

 

Niðurstöður úr svefnrannsókninni okkar

Í heilsuviku skráðu nemendur í 5. – 10. bekk svefntíma sinn í heila viku að ósk heilsuráðs. Allar tölurnar voru settar upp í töflureikni og reiknað meðaltal hvers nemanda og síðan allra saman. Flestir náðu viðmiðum Landlæknisembættisins og náðu um 8-10 tíma svefni. Við vekjum athygli á því að á aðfaranótt föstudags sváfu allir minna en vanalega því það var gistikvöldvaka og allir nemendur gistu í skólanum. Hér má sjá niðurstöðurnar, á efri töflunni er meðalsvefn allra í 5. 10. bekk en að neðan má sjá dreifinguna innan hópsins.

Þorrablót

Við héldum okkar árlega þorrablót á bóndadeginum. Að venju voru mörg skemmtileg atriði á dagskrá: vísur, söngur, brandarar, annáll elstu nemendanna og hið sívinsæla starfsmannatriði var á sínum stað. Vel var borðað af þorramat og skemmtu sér allir vel.

 

 


Málþing um umhverfisvernd í Hríseyjarskóla

Málþing um umhverfisvernd

Verkefnið Island Schools er Erasmus+ samvinnuverkefni á milli fjögurra eyja í Evrópu eða Hríseyjar, Vlieland við Holland, Astypalea við Grikkland og Barra við Skotland. Á vorönninni unnu nemendur í Hríseyjarskóla og Hollendingarnir saman verkefni um plastefni í hafi í átta vikur og lauk því verkefni með heimsókn hollensku krakkana til Hríseyjar. 

Þann 21. nóvember var síðan haldið málþing í Hríseyjarskóla þar sem vinnan síðasta vor var tekinn saman og fólk héðan og þaðan úr samfélaginu settist saman og ræddi plast í hafinu og helstu umhverfismál. Málþingið var vel sótt og mættu alls um þrjátíu manns. Nemendur voru búnir að baka kleinur og var boðið upp á þær og kaffi. Dagskráin var eftirfarandi: Málþingið var sett um tíu leytið, Háskólinn á Akureyri var með stutta kynningu á verkefninu og sinn hluta í því, svo voru nemendur úr 9.-10. bekk með kynningu um sína sýn á verkefnið og hvað þau gerðu. Eftir það var stutt hlé, hópnum síðan skipt í fimm minni hópa sem skiptu sér í stofur og Háskólinn lagði fyrir þrjár spurningar:

 

  1. Hvernig má styðja og styrkja hlutverk skólans (nemenda og kennara) til að efla samfélagið til sjálfbærni?   
  2. Er eitthvað í núverandi stefnumótun sem beinist sérstaklega að eyjasamfélögum? Ef eitthvað, hvað?
  3. Þarf að breyta stefnumótun til framtíðar til að styrkja samfélagið til sjálfbærni?

Unnið var í hópunum í 25 mínútur og allir fengju jöfn tækifæri til að tjá sig, svo kynntu hóparnir niðurstöður og þær teknar saman. Eftir það var gestum boðið upp á súpu og brauð í íþróttahúsinu sem Helena eldaði fyrir okkur, og fékk hún mikið lof fyrir.  

Niðurstöðurnar voru þær að við þurfum að hugsa til framtíðar, við þurfum að taka ábyrgð á gjörðum okkar og ábyrgð á draslinu í sjónum og heiminum öllum, það vantar að kynna stefnumótun betur fyrir almenningi, það vantar fræðslu um rusl og hvernig við flokkum. Nokkrir nemendur tóku að sér að taka upp málþingið og tóku nokkra í viðtal um þingið, myndbandið er í vinnslu og verður birt síðar.   

Við erum einstaklega ánægð með málþingið þótt við segjum sjálf frá, okkur fannst þetta takast vel til, og þökkum við öllum sem skráðu sig og mættu kærlega fyrir þátttökuna. 

 

Nemendur 9. – 10. bekk

 

 

« Older Entries