Sudburyvika

Þessa vikuna var okkar árlega Sudburyvika. Flestir nemendur okkar eru reynsluboltar í Sudburyvikum en nokkrir voru að stíga sín fyrstu skref og auka ábyrgð sína á eigin námi. Að venju gerðu eldri nemendur sína eigin stundatöflu fyrir vikuna, rökstuddu val á verkefnum og settu sér markmið (elstu tengdu líka við hæfniviðmið). Mikil vinna fór fram í vikunni, sumt gekk alveg smurt en annað krafðist mikillar einbeitningar og þrautseigju. 

Sumir gleymdu að skila inn uppskriftum og innkaupalistum og þurftu því að gera breytingar á stundatöflu, aðrir voru í tæknibrasi en allt gekk þetta upp að lokum. Í tæknistofu var lært á 3D prentarann og urðu til ný 3D stykki, prentuð var mynd á bolla í Cricut vélinni okkar, nýr leikur var forritaður í Scratch og myndbönd klippt. Í eldhúsinu var búið til búst, eldaðar kjötbollur, bökuð peruterta og Subway kökur. Í listasmiðju voru málaðar myndir, saumað, föndrað og útbúin Barbie húsgögn og Barbie matur. Í hreyfistund var farið í hópeflisleiki, snúsnú, dansað, leikið og marserað. Einnig var farið í val á leikskóla, púslað, Osmo, stærðfræði, gerð veggspjöld og ritgerðir og tveir nemendur fóru úr húsi og unnu á vinnustöðum utan skólans. 

Seinasta daginn voru kynningar nemenda þar sem þau gerðu upp sína viku. Fóru þau yfir hvað gekk upp og hvað ekki, sögðu frá því hvaða lærdóm þau draga af vikunni og sýndu afrakstur og myndir. Hér má sjá nokkrar myndir frá vikunni.

Hér má lesa meira um Sudburyvikur: https://hriseyjarskoli.is/sudbury-vikur/

 

Lestrarátak í Hríseyjarskóla

Þessa dagana stendur yfir lestrarátak og taka allir nemendur og starfsfólk þátt auk þess sem foreldrar og íbúar eyjarinnar eru hvattir til lesturs.

 

Fyrirkomulagið er þanning að eftir hvern lesinn/hlustaðan klukkutíma má skrá nafn bókarinnar á miða og setja miðann í regnbogann. Sérstakir litir einkenna hvern hóp:

Gulur: yngri deild

Rauður: leikskólinn

Grænn: miðdeild

Blár: eldri deild

Fjólublár: starfsfólk

Appelsínugulur: foreldrar og þorpsbúar.

Lestrarátak

Niðurstöður skólaþingsins

Miðvikudaginn 18. október var haldið skólaþing í Hríseyjarskóla í þriðja sinn. Þingið fór fram með sama sniði og síðustu ár þ.e. skólastjóri setti þingið á sal skólans og fór lítillega yfir þróun kennsluhátta í Hríseyjarskóla frá 2016 til dagsins í dag. Síðan tóku nemendur við og sáu um umræður í tveimur hópum. Síðustu tvö árin hefur umræðuefnið beinst að skólanum, skólareglum og hvað einkenni góða skóla en að þessu sinni beindist umræðan að námsmenningu og því hvernig nemendur geti bætt sig sem námsmenn og hvernig foreldrar og nærsamfélagið geti stutt við bakið á þeim. Að umræðum loknum var aftur haldið fram á sal og kynntu hópstjórar og ritarar niðurstöður sinna hópa: 

 

  • Hvernig geta nemendur bætt sig sem námsmenn: nýta tímann sinn betur, fara eftir fyrirmælum, hlusta betur á kennarann, vanda framkomu sína, taka þátt í verkefnum og leggja sig fram í hópverkefnum. 
  • Hvernig geta foreldrar stutt við nemendur: með því að fylgjast betur með heimanámi, sýna því áhuga og styðja og hvetja til þess.
  • Hvernig getur nærsamfélagið komið að skólastarfinu: fá aðila inn til að fræða nemendur, nýta gesti úr Gamla skóla og samfélagið má taka meiri þátt í viðburðum á vegum skólans. Að kynningu lokinni var öllum þátttakendum boðið að taka könnun um fyrirkomulag og virkni á þinginu og síðan var boðið upp á vöfflukaffi, spjall og púsl. 

 

Nemendur stóðu sig vel og sérstakar þakkir fá hópstjórar og ritarar fyrir sitt framlag. Það er mikil þjálfun falin í því að taka að sér slík störf sem og að taka þátt í þinginu og koma sínum hugðarefnum og skoðunum á framfæri á viðeigandi hátt. 

« Older Entries