Þorrablót

Við héldum okkar árlega þorrablót á bóndadeginum. Að venju voru mörg skemmtileg atriði á dagskrá: vísur, söngur, brandarar, annáll elstu nemendanna og hið sívinsæla starfsmannatriði var á sínum stað. Vel var borðað af þorramat og skemmtu sér allir vel.

 

 


Málþing um umhverfisvernd í Hríseyjarskóla

Málþing um umhverfisvernd

Verkefnið Island Schools er Erasmus+ samvinnuverkefni á milli fjögurra eyja í Evrópu eða Hríseyjar, Vlieland við Holland, Astypalea við Grikkland og Barra við Skotland. Á vorönninni unnu nemendur í Hríseyjarskóla og Hollendingarnir saman verkefni um plastefni í hafi í átta vikur og lauk því verkefni með heimsókn hollensku krakkana til Hríseyjar. 

Þann 21. nóvember var síðan haldið málþing í Hríseyjarskóla þar sem vinnan síðasta vor var tekinn saman og fólk héðan og þaðan úr samfélaginu settist saman og ræddi plast í hafinu og helstu umhverfismál. Málþingið var vel sótt og mættu alls um þrjátíu manns. Nemendur voru búnir að baka kleinur og var boðið upp á þær og kaffi. Dagskráin var eftirfarandi: Málþingið var sett um tíu leytið, Háskólinn á Akureyri var með stutta kynningu á verkefninu og sinn hluta í því, svo voru nemendur úr 9.-10. bekk með kynningu um sína sýn á verkefnið og hvað þau gerðu. Eftir það var stutt hlé, hópnum síðan skipt í fimm minni hópa sem skiptu sér í stofur og Háskólinn lagði fyrir þrjár spurningar:

 

  1. Hvernig má styðja og styrkja hlutverk skólans (nemenda og kennara) til að efla samfélagið til sjálfbærni?   
  2. Er eitthvað í núverandi stefnumótun sem beinist sérstaklega að eyjasamfélögum? Ef eitthvað, hvað?
  3. Þarf að breyta stefnumótun til framtíðar til að styrkja samfélagið til sjálfbærni?

Unnið var í hópunum í 25 mínútur og allir fengju jöfn tækifæri til að tjá sig, svo kynntu hóparnir niðurstöður og þær teknar saman. Eftir það var gestum boðið upp á súpu og brauð í íþróttahúsinu sem Helena eldaði fyrir okkur, og fékk hún mikið lof fyrir.  

Niðurstöðurnar voru þær að við þurfum að hugsa til framtíðar, við þurfum að taka ábyrgð á gjörðum okkar og ábyrgð á draslinu í sjónum og heiminum öllum, það vantar að kynna stefnumótun betur fyrir almenningi, það vantar fræðslu um rusl og hvernig við flokkum. Nokkrir nemendur tóku að sér að taka upp málþingið og tóku nokkra í viðtal um þingið, myndbandið er í vinnslu og verður birt síðar.   

Við erum einstaklega ánægð með málþingið þótt við segjum sjálf frá, okkur fannst þetta takast vel til, og þökkum við öllum sem skráðu sig og mættu kærlega fyrir þátttökuna. 

 

Nemendur 9. – 10. bekk

 

 

Haustfréttir Hríseyjarskóla

Nemendur í yngri deild tóku að sér umsjón með haustfréttatíma Hríseyjarskóla. Mikil vinna var lögð í verkið og nemendur lærðu heilmikið á öllu ferlinu, svo sem að sjá um handrit, æfingar, upptökur og enn fleiri upptökur. Eldri nemendur aðstoðuðu við klippingu og frágang.

Góða skemmtun.

 

Sjálfbærni, nýsköpun og tækni í Hríseyjarskóla

Við fengum ánægjulega heimsókn fimmtudaginn 1. september þar sem fráfarandi verkefnastjórn í Brothættra byggða verkefninu Hrísey, perla Eyjafjarðar afhenti Hríseyjarskóla styrk að upphæð 2.329.920 kr. fyrir verkefnið Sjálfbærni, nýsköpun og tækni í Hríseyjarskóla. Um var að ræða fjármuni sem ekki höfðu nýst í fyrri úthlutunum í verkefninu Hrísey, perla Eyjafjarðar.

Í stuttu máli snýst verkefnið um að auka þekkingu nemenda á ræktun matvæla og að efla námsframboð í upplýsingatækni með kaupum á fjölbreyttum og nýstárlegum tæknibúnaði.

Miðvikudaginn 12. október var gleðidagur en þá var sett niður hjá okkur 20m2 gróðurhús, svokallað Bambahús sem keypt var fyrir styrkinn. Bambar eru 1.000 lítra IBC vökva tankar úr plasti umvafðir járngrind. Bambarnir eru venjulega einnota, en í gegnum Bambahús er þessum tönkum gefið nýtt líf. Járngrindin utan um tankana er tekin í sundur og vökva tankarnir eru endurnýttir sem innvols í gróðurhúsið. Úr þessu verða létt og færanleg gróðurhús sem er hægt að setja hvar sem er þar sem er slétt undirlag. Eina aðkeypta efnið í gróðurhúsin eru klæðning, hurð og skrúfur.

Notkun gróðurhússins stuðlar að eflingu hringrásar hagkerfisins þar sem endurnýttar eru vökvaumbúðir sem annars væru fluttar úr landi og urðaðar.

Tilgangur hússins er að kenna nemendum sjálfbærni og ræktum og hvernig er hægt að minnka kolefnisspor. Hlökkum við mikið til að hefjast handa.

Það eru allir velkomnir til að kíkja á húsið og gefa okkur góð ráð varðandi ræktunina. 

 

 

Nánar má lesa um úthlutun styrksins á vef Byggðastofnunar:

https://www.byggdastofnun.is/is/frettir/category/1/bjart-yfir-hrisey-1

 

Grænfáninn í Hríseyjarskóla

Síðastliðinn föstudag 20. maí fékk Hríseyjarskóli afhentan Grænfánann í 6. skipti. Fulltrúar frá Landvernd heimsóttu skólann og afhentu okkur fánann, að þessu sinni fengum við ekki fána heldur skjöld sem festur verður á skólann. Í umsögn segir að skólastarfið sýni að unnið sé að menntun til sjálfbærni út frá mörgum vinklum og fjölmörg verkefni sem hafa verið unnin síðustu ár rýma mjög vel við grænfánastarfið.

Skólar á grænni grein, grænfánaverkefnið er alþjóðlegt umhverfismenntar verkefni sem rekið er af Landvernd á Íslandi. Markmið verkefnisins er að auka umhverfismennt, menntun til sjálfbærni og að styrkja umhverfisstefnur skóla. Verkefnið er stærsta umhverfismennta verkefni í heimi og er haldið úti af samtökum Foundation for Environmental Education.

 

« Older Entries