Sudburyvikur

Einu sinni á ári er Sudburyvika í Hríseyjarskóla. Heitið Sudbury kemur frá Sudbury Valley school, sem stofnaður var árið 1968 í Farmingham, Massachusetts og eina viku á ári vinnum við með hugmyndafræði þeirra. Í Sudbury skólum eru nemendur sjálfstæðir einstaklingar sem bera fulla ábyrgð á eigin námi. Í skólunum er lýðræði þar sem allir hafa tækifæri til að hafa áhrif í öllum ákvörðunum. Frelsi og gagnkvæm virðing eru lykilhugtök í skólunum.

 

Markmið okkar með  Sudbury vikunni eru:

  •      að koma til móts við nemendur
  •      að sýna nemendum traust
  •      að nemendur velji hvað þeir vilja gera þessa viku
  •      að nemendur njóti þess að vera í skólanum
  •      að nemendur átti sig á að það er hægt að læra á margvíslegan hátt
  •      að nemendur gangi vel um og vandi frágang

 

Undirbúningur nemenda fyrir Sudburyviku er  gríðarlega mikilvægur. Eldri nemendur setja upp sitt eigið skipulag fyrir vikuna, setja sér markmið og rökstyðja val á verkefnum og finna uppskriftir, snið eða fyrirmyndir til að vinna eftir og skila inn innkaupalista. Eldri nemendur tengja einnig sín verkefni við lykilhæfni og/eða hæfniviðið og gera grein fyrir því hvað þeir telja sig munu læra nýtt í komandi viku. Yngri nemendur fá líka að velja sér verkenfi og fara heim með óskalista í vikunni fyrir Sudbury, kennarar sjá síðan um að raða í stundatöflur. Þegar nemendur hafa skilað sínu inn og fengið samþykkt fara kennarar yfir allt og raða sér niður á vikuna eftir því hvar þeirra leiðsögn kemur að mestu gagni.

Í Sudburyvikunni sjálfri enda nemendur á að taka upp eða skrifa dagbók. Þar er farið yfir daginn og gert upp gekk vel og hvað fór ekki eins og áætlað var. Nemendur segja frá því sem þeir hafa lært nýtt eða sett í sinn reynslubanka. Kennarar fara yfir allar dagbækur áður en nemendur halda heim á leið og gæta þess að búið sé að ganga frá öllu, því frágangur er stór hluti af Sudburyviku. 

Eftir vikuna halda nemendur kynningar á sinni vikunni og sýna og segja frá sínum afrakstri. Við undirbúning kynningarinnar fara nemnedur yfir hvort markmið þeirra náuðust og gera grein fyrir því í kynningunni.