Stoðþjónusta í Hríseyjarskóla
Stoðþjónusta í Hríseyjarskóla
Fræðslu- og lýðheilsusvið Akureyrarbæjar sinnir sérfræðiþjónustu við grunn- og leikskólann að því er varðar málefni einstakra nemenda. Starfsmenn skóla og foreldrar geta sótt um sérfræðiþjónustu fyrir börn með tilvísun til sérfræðiþjónustu leik- og grunnskóla. Sem dæmi um vanda barns sem leitað er aðstoðar fyrir má nefna sértæka námserfiðleika, þroskafrávik, hegðunarvanda, einelti og tilfinningalega erfiðleika. Starfsmenn meta vanda barns með prófunum, viðtölum og skoðun á stöðu barnsins og gera tillögur um úrbætur í samvinnu við fjölskyldu og skóla. Jafnréttisáætlun Akureyrarbæjar er höfð að leiðarljósi í stoðþjónustu skólans.
Námsaðlögun og stuðningur
Hríseyjarskóli er fámennur skóli og því fer stuðningskennsla eða önnur einstaklingsaðstoð ávallt fram innan bekkjardeildar en ekki í námsveri. Námsleg og félagsleg staða nemenda er ólík og því er lögð áhersla á að meta hvern nemanda og hvaða úrræði henta best. Þeir sem ekki fylgja námsframvindu sem getur talist eðlileg miðað við aldur fá meiri stuðning og námsaðstoð eftir þörfum s.s breytingar á námsmarkmiðum, námsefni, námsaðstæðum eða kennsluaðferðum. Unnið er samkvæmt einstaklingsnámskrá sem umsjónarkennarar og skólastjóri útbúa í samráði við sérfræðiþjónustu Fræðslu- og lýðheilsusviðs Akureyrarbæjar og foreldra/forráðamenn. Meginmarkmiðið er að stuðla að alhliða þroska nemenda, bæði andlegum og líkamlegum. Leitast er við að ná þessu markmiði með jákvæðu viðmóti og virðingu fyrir einstaklingnum um leið og lögð eru fyrir verkefni við hæfi. Við Hríseyjarskóla starfar einn stuðningsfulltrúi í hálfri stöðu. Hlutverk stuðningsfulltrúa er fyrst og fremst að auka færni og sjálfstæði nemenda, hvort heldur sem er námslega eða félagslega.
Teymi eru mynduð utan um nemendur með sérþarfir af ýmsu tagi til að halda utan um málefni þeirra og námsframvindu. Fundir eru að öllu jöfnu haldnir 2 á önn en oftar ef þörf er talin á. Í teymunum sitja foreldrar, umsjónarkennarar, skólastjóri og fulltrúi frá sérfræðiþjónustu Fræðslu- og lýðheilsusviðs Akureyrarbæjar, auk aðila frá tengslastofnunum ef við á.
Ef foreldrar hafa áhyggjur af námslegri framvindu barna sinna eða félagslegri stöðu þeirra geta þeir snúið sér til umsjónarkennara, sem síðan í framhaldinu ræðir við skólastjóra og fulltrúa frá sérfræðiþjónustu Fræðslu- og lýðheilsusviðs Akureyrarbæjar um lausnir. Góð samvinna milli allra þeirra sem koma að nemendum er forsenda árangursríks starfs.
Nemendaverndarráð
Hlutverk nemendaverndarráðs er að samræma skipulag og framkvæmd þjónustu við nemendur varðandi heilsugæslu, námsráðgjöf og sérfræðiþjónustu, vera skólastjóra til aðstoðar við gerð og framkvæmd áætlana um sérstaka aðstoð við nemendur. Þurfi nemandi á sérstakri aðstoð að halda vegna fötlunar, sjúkdóms, félagslegra eða tilfinningalegra erfiðleika geta starfsmenn skólans eða foreldrað óskað eftir umfjöllun í nemendaverndarráði.
Í ráðinu sitja skólastjóri, umsjónarkennari, skólahjúkrunarfræðingur, auk þess funda reglulega með ráðinu félagsráðgjafi (fulltrúi barnaverndar), sálfræðingur og sérkennsluráðgjafi frá Akureyrarbæ. Nemendaverndarráð fundar einu sinni í mánuði.
Náms- og starfsráðgjöf
Enginn náms- og starfsráðgjafi starfar við Hríseyjarskóla eins og er, en unnið er að því að svo verði.
Skimunaráætlun Hríseyjarskóla
Leikskólastig
- Orðaskil – Málþroskapróf fyrir börn frá 18 mánaða til 3 ára. Ætlað að mæla orðaforða barnanna og vald þeirra á beygingarkerfi og setningagerð.
- TRAS – Með TRAS skráningunni er skimað eftir frávikum í mál- og félagsþroska barnanna með fyrirbyggjandi íhlutun í huga. TRAS skráning er miðuð út frá afmælismánuði nemenda.
- HLJÓM 2 – Aldursbundin skimun sem er lögð fyrir til að meta hljóðkerfis- og málmeðvitund barna í elsta árgangi leikskólans í því skyni að greina þau börn sem eru í áhættu fyrir síðari lestrarerfiðleika.
Grunnskólastig
- Lesfimi í öllum bekkjum lögð fyrir í september, janúar og maí
- Orðarún – lesskilningspróf, 3. – 8. bekkur
- Lesferill Menntamálastofnunar 1. bekkur
- Stafakannanir í 1. og 2. bekk.
- Aðrar skimanir gerðar eftir þörfum.
Verklagsreglur vegna nemenda með fjölþættan vanda
Markmið með þessum reglum og verklagi þar um er að samræma verkferla grunnskóla bæjarins þegar um flókinn vanda er að ræða og auðvelda aðgengi starfsfólks að upplýsingum um verklag og tryggja að faglega og vel sé brugðist við í flóknum málum.