Archive for 14. mars, 2022

Lestur í Hríseyjarskóla

Það margt að gerast í lestrinum hjá okkur. Alla föstudaga er einn nemandi eða starfsmaður lesari vikunnar og les fyrir alla á sal skólans. Yndislestur og Lubbastundir eru í hverri viku og Kristín Björk hefur undanfarnar vikur komið inn í skólann og hlustað á nemendur lesa á bókasafninu og færum við henni bestu þakkir fyrir frábært framtak. Læsisteymi Hríseyjarskóla hefur fundað reglulega og rætt m.a. um stöðu lesturs í nútímanum og velt vöngum yfir því hvað hægt sé að gera til þess að hvetja börn og fullorðna til þess að lesa meira og koma á bókasafnið á þriðjudögum. Við höfum rætt um læsi út frá kynjum og aldri og mikilvægi þess að að hafa fjölbreytt lesefni.

Krakkarnir hafa verið duglegir að koma með hugmyndir og á haustönn héldum við ískúlu lestrarátak fyrir alla í skólanum og grunnskólanemar lásu 6000 blaðsíður, starfsfólk las 3542 blaðsíður og leikskólinn las 11 bækur saman og skoðuðu fjöldann allan af bókum.  Í verðlaun fengu allir heimagerðar ískúlur á fullveldisdeginum þann 1. desember.

Nú í febrúar ræddu unglingarnir okkar um drengi og læsi og upp spruttu miklar umræður og framhaldinu ákvað Arnór Breki í 7. bekk að leiða lestrarákak fyrir vorönn. Verkefnið hefur vaxið og er orðið að lestraráktaki fyrir alla Hríseyinga og margir nemendur hafa komið með hugmyndir að efni og útfærslu. Lestrarátakið verður bingó og hægt verður að fá spjöld í Hríseyjarbúðinni án endurgjalds. Átakið stendur yfir frá 14. mars til 18. apríl og á sumardaginn fyrsta verða dregnir út vinningshafar. Við hvetjum alla Hríseyinga til þess að taka þátt og vera duglegir að lesa.

Læsisteymi Hríseyjarskóla