Archive for nóvember 29, 2019

Niðurstöður úr könnun

Í tilefni að degi íslenskrar tungu héldu nemendur og starfsfólk Hríseyjarskóla hádegisboð í Íþróttamiðstöðinni. Dagskráin í ár var með öðru sniði en undanfarin ár en í þetta sinn var gestum boðið á tæknikynningu þar sem nemendur kynntu smáforrit sem notuð eru í kennslu við skólann. Fyrirkomulagið var þannig að nemendur höfðu valdið sér eitt smáforrit og útbjuggu kynningar og settu upp bása. Gestirnir gengu á milli bása og hlustuðu á kynningarnar, skoðuðu og fengu að prófa. Á tveggja mínútna fresti hringdi klukka og þá skiptu gestir um bása en nemendur héldu áfram að kynna sitt smáforrit fyrir næsta hóp. Kynningarnar gengu vel og stóðu allir nemendur sig vel og gaman var að sjá hve ánægðir gestirnir voru. Að loknum kynningum var gestum boðið upp á súpu að hætti Helenu og var það von okkar að allir væru saddir og sælir.

Þar sem um nýjung var að ræða var ákveðið að útbúa rafræna könnun til að meta hvernig til tókst. Gestir voru beðnir um að svara nokkrum spurningum og eins og sjá má á niðurstöðunum voru gestir ánægðir með þetta fyrirkomulag.

Alþjóðlegur dagur barna

Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna var 30 ára í gær, 20. nóvember, og því var þessi dagur á alþjóðavísu tileinkaður réttindum barna. Í tilefni þess var farið yfir barnasáttmálann með nemendum á sal og síðan haldið nemendaþing. Nemendum var skipt þvert á aldur í fjóra hópa og fengu allir hóparnir sama spurningalistann til að ræða um og svara. Hver hópur var með hópstjóra og ritara og gaman var að sjá hversu áhugasamir allir voru við vinnuna. Að lokum hittust allir hóparnir á sal og gerðu grein fyrir sínum niðurstöðum. Í Hríseyjarskóla leggjum við mikið upp úr því að raddir barna og ungmenna heyrist og tókum því þessu verkefni fagnandi.

Gjöf frá foreldrafélaginu

Nú á dögunum fékk skólinn Osmo-standa að gjöf frá foreldrafélaginu. Osmo er notað í mörgum fögum hjá okkur til dæmis íslensku, stærðfræði, forritun og myndlist. Osmo-standarnir eru kærkomin viðbót og nú geta fleiri verið í Osmo í einu og þannig nýtist tíminn betur. Við þökkum Foreldrafélaginu kærlega fyrir þessa gjöf.

Smábær

Leikskóli Hríseyjarskóla veturinn 2019-2020

Veturinn hjá okkur í leikskólanum fór bara nokkuð vel að stað.Við byrjuðum með tvær prinsessur þær Elektru Sól Hermannsdóttur og Bryndísi Petru Ingólfsdóttur en fljótlega bættist  sú þriðja við Maríanna Sólrós Ásgeirsdóttir, margt var brallað og mikið um útiveru þar sem farið var í fjöruferðir,göngutúra, á hátíðarsvæðið og að sjálfsögðu í gula bát. Ekki eru þær nú alltaf til í að hafa fullorðnafólkið hangandi yfir sér þar sem við skemmum yfirleitt allt en með hörðum samningaviðræðum tókst að semja um að við mættum vera á kanntinum en helst ekki að skipta okkur of mikið af. Þarna er sko hver sjálfstæðari en önnur og allar vilja þær ráða. En svo urðu prinsessurnar aftur tvær þar sem við því miður misstum eina til Reykjavíkur hana Maríönnu Sólrósu en vonum við að hún njóti sín bara líka þar eins og hún gerði hér.

 Stundum gæti maður haldið að maður væri með tvíbura á leikskólanum en ekki bara bestu vinkonur, svo mikil er vinkonuástin og ekki er nóg að eyða öllum deginum saman á leikskólanum heldur leika þær flesta daga saman eftir leikskóla líka, en hér er í skólanum er allt á fullu og allir farnir að verða annsi spenntir, það eru að koma JÓL takk fyrir, já ég sagði jól, okkur finnst nú ekki svo ýkja langt frá því að við vorum að mæta hingað eftir sumarfrí rétt eftir miðjan Ágúst . En margt að gera og nú fer að koma að jólaundirbúningi með tilheyrandi gluggamálun, skreytingum, bakstri og skreytingum á piparkökum, jólaföndri, litlu jólum og jólaballi. Við kveðjum hér frá Smábæ, leikskóladeild Hríseyjarskóla og farið varlega elskurnar í jólaösinni og hafið það sem allra best.

Með jólakveðju

Starfsfólk leikskólans og prinsessurnar tvær:O)

Hádegisboð Hríseyjarskóla

Í tilefni af degi íslenskrar tungu var haldið hádegisboð fyrir Hríseyinga í Íþróttamiðstöðinni í dag. Nemendur buðu upp á tæknikynningu þar sem þeir kynntu hin ýmsu smáforrit og tækni sem notuð eru í náminu í Hríseyjarskóla. Einnig var Lubbi finnur málbeinið kynntur, það er kennsluaðferð sem leikskóladeildin notar í málvörun. Gestir fengu að sjá skemmtilega útfærslu af samkennslu málörvunar og forritunar og fengu að prufa. Gestum var boðið upp á súpu og brauð. Allir voru glaðir og ánægðir með daginn og við þökkum kærlega fyrir áhugasama gesti.