Archive for 25. febrúar, 2020

Sudburyvika

Í síðustu viku var Sudburyvika í Hríseyjarskóla og að vanda voru fjölbreytt verk sem nemendur völdu að vinna. Vinnan hófst á því að unnið var með lykilhæfni í hópum og var markmiðið að kafa betur í lykilhæfnina því nemendur tengja öll verkefnin sín í Sudburyvikum við lykilhæfni Menntamálastofnunnar. Undirbúningur fólst í því að hver og einn valdi verkefni, gerði drög að stundatöflu og mætti á fund með skólastjóra þar sem farið var yfir verkefnin, tilgang þeirra og undirbúning, hvernig aðstoð og aðstöðu hver og einn þyrfti. Verkefnin voru af ýmsum toga eins og sjá má á meðfylgjandi myndum. Dagbókarvinnan var á sínum stað eins og venjulega. Allir skrifuðu dagbók í lok hvers dags þar sem tekið var fram hvernig hvert verkefni gekk og hvað þau lærðu af því. Til að meta vinnuna í Sudburyvikunni fengu allir sent sjálfsmat til að svara og kennarar fóru yfir og gáfu síðan hverjum og einum umsögn. Ein spurningin var um það hvort nemendur vildu hafa aftur Sudburyviku og það vildu allir enda margir farnir að hugsa hvað þeir ætla að velja í Sudbury næsta haust.

Heilsueflandi grunnskóli

Hríseyjarskóli er nú kominn í hóp heilsueflandi grunnskóla á Íslandi. Helstu markmið heilsueflandi skóla eru að skapa skólaumhverfi sem stuðlar að andlegri, líkamlegri og félagslegri heilsu og vellíðan nemenda og starfsfólks í samvinnu við heimili og nærsamfélag. Óskað var eftir fólki í heilsunefnd og hefur nefndin nú hist tvisvar sinnum. Í nefndinni sitja skólastjóri, tveir nemendur, fulltrúi kennara, starfsmanna og foreldra sem og einn aðili úr nærsamfélaginu. Næstu skref nefndarinnar eru að búa til heilsustefnu þar sem horft er á allt skólasamfélagið í heild og kynna hana vel.
Fyrstu áhersluþættirnir sem við munum innleiða eru geðrækt, hreyfing/öryggi, lífsleikni og mataræði/ tannheilsa. Við munum taka þátt almennings íþróttaátökum og síðustu tvær vikurnar hafa nemendur og starfsfólk tekið þátt í lífshlaupinu, sem er skemmtilegt verkenfi á vegum ÍSÍ.

Lykilhæfni

Framundan er Sudburyvika og þar sem nemendur tengja sína vinnu við lykilhæfni þá var ákveðið að vinna með hana í dag. Allir hittust á sal og við ræddum um lykilhæfni, veltum orðinu fyrir okkur og lögðum línur að verkefninu. Síðan var skipt í þrjá hópa eftir aldri og sjálf vinnan hófst. Allir hóparnir fengu veggspjald með lykilhæfninni og vinnan fólst í að lesa, ræða um og skilgreina hvern þátt fyrir sig. Í hverjum hópi var ritari en skil voru með frjálsum hætti. Elstu nemendurnir völdu að skrifa texta og prenta, nemendur í 5. – 7. bekk völdu að gera hugtakakort í iPad og nemendur í 2. og 3. bekk völdu að skrifa á pappír og fengu síðan aðstoð við að koma textanum sínum í tövlu. Að lokum hittust allir á sal og hóparnir kynntu sínar niðurstöður. Þetta var mjög góð vinna og hengjum við verkefnin upp í stofunum og á salnum.

Dagur Leikskólans

Vöfflukaffi í leikskólanum

Fimmtudagurinn 6.febrúar 2020 var dagur leikskólans og var hann haldinn hátíðlegur hjá okkur hér í leikskóladeild Hríseyjarskóla, við buðum alla velkomna í vöfflukaffi klukkan 10:00 og var mjög ánægjulegt að sjá hvað margir gáfu sér tíma til að kíkja til okkar og fagna þessum degi með okkur. Hér var borðað og spjallað um daginn og veginn og allir nutu þess að sýna sig og sjá aðra, það er von okkar allra hér í skólanum kennara, nemenda og annars starfsfólks að allir hafi notið sín og að allir verði duglegir að gleðja okkur með nærveru sinni þennan merka dag um ókomin ár.

Takk kærlega fyrir okkur

                             Kveðja frá Hríseyjarskóla