Málþing um umhverfisvernd
Verkefnið Island Schools er Erasmus+ samvinnuverkefni á milli fjögurra eyja í Evrópu eða Hríseyjar, Vlieland við Holland, Astypalea við Grikkland og Barra við Skotland. Á vorönninni unnu nemendur í Hríseyjarskóla og Hollendingarnir saman verkefni um plastefni í hafi í átta vikur og lauk því verkefni með heimsókn hollensku krakkana til Hríseyjar.
Þann 21. nóvember var síðan haldið málþing í Hríseyjarskóla þar sem vinnan síðasta vor var tekinn saman og fólk héðan og þaðan úr samfélaginu settist saman og ræddi plast í hafinu og helstu umhverfismál. Málþingið var vel sótt og mættu alls um þrjátíu manns. Nemendur voru búnir að baka kleinur og var boðið upp á þær og kaffi. Dagskráin var eftirfarandi: Málþingið var sett um tíu leytið, Háskólinn á Akureyri var með stutta kynningu á verkefninu og sinn hluta í því, svo voru nemendur úr 9.-10. bekk með kynningu um sína sýn á verkefnið og hvað þau gerðu. Eftir það var stutt hlé, hópnum síðan skipt í fimm minni hópa sem skiptu sér í stofur og Háskólinn lagði fyrir þrjár spurningar:
- Hvernig má styðja og styrkja hlutverk skólans (nemenda og kennara) til að efla samfélagið til sjálfbærni?
- Er eitthvað í núverandi stefnumótun sem beinist sérstaklega að eyjasamfélögum? Ef eitthvað, hvað?
- Þarf að breyta stefnumótun til framtíðar til að styrkja samfélagið til sjálfbærni?
Unnið var í hópunum í 25 mínútur og allir fengju jöfn tækifæri til að tjá sig, svo kynntu hóparnir niðurstöður og þær teknar saman. Eftir það var gestum boðið upp á súpu og brauð í íþróttahúsinu sem Helena eldaði fyrir okkur, og fékk hún mikið lof fyrir.
Niðurstöðurnar voru þær að við þurfum að hugsa til framtíðar, við þurfum að taka ábyrgð á gjörðum okkar og ábyrgð á draslinu í sjónum og heiminum öllum, það vantar að kynna stefnumótun betur fyrir almenningi, það vantar fræðslu um rusl og hvernig við flokkum. Nokkrir nemendur tóku að sér að taka upp málþingið og tóku nokkra í viðtal um þingið, myndbandið er í vinnslu og verður birt síðar.
Við erum einstaklega ánægð með málþingið þótt við segjum sjálf frá, okkur fannst þetta takast vel til, og þökkum við öllum sem skráðu sig og mættu kærlega fyrir þátttökuna.
Nemendur 9. – 10. bekk