Niðurstöður skólaþingsins
Miðvikudaginn 18. október var haldið skólaþing í Hríseyjarskóla í þriðja sinn. Þingið fór fram með sama sniði og síðustu ár þ.e. skólastjóri setti þingið á sal skólans og fór lítillega yfir þróun kennsluhátta í Hríseyjarskóla frá 2016 til dagsins í dag. Síðan tóku nemendur við og sáu um umræður í tveimur hópum. Síðustu tvö árin hefur umræðuefnið beinst að skólanum, skólareglum og hvað einkenni góða skóla en að þessu sinni beindist umræðan að námsmenningu og því hvernig nemendur geti bætt sig sem námsmenn og hvernig foreldrar og nærsamfélagið geti stutt við bakið á þeim. Að umræðum loknum var aftur haldið fram á sal og kynntu hópstjórar og ritarar niðurstöður sinna hópa:
- Hvernig geta nemendur bætt sig sem námsmenn: nýta tímann sinn betur, fara eftir fyrirmælum, hlusta betur á kennarann, vanda framkomu sína, taka þátt í verkefnum og leggja sig fram í hópverkefnum.
- Hvernig geta foreldrar stutt við nemendur: með því að fylgjast betur með heimanámi, sýna því áhuga og styðja og hvetja til þess.
- Hvernig getur nærsamfélagið komið að skólastarfinu: fá aðila inn til að fræða nemendur, nýta gesti úr Gamla skóla og samfélagið má taka meiri þátt í viðburðum á vegum skólans. Að kynningu lokinni var öllum þátttakendum boðið að taka könnun um fyrirkomulag og virkni á þinginu og síðan var boðið upp á vöfflukaffi, spjall og púsl.
Nemendur stóðu sig vel og sérstakar þakkir fá hópstjórar og ritarar fyrir sitt framlag. Það er mikil þjálfun falin í því að taka að sér slík störf sem og að taka þátt í þinginu og koma sínum hugðarefnum og skoðunum á framfæri á viðeigandi hátt.