Archive for Author Hrund Teitsdóttir

Ferð á Grunnskólamótið á Laugum

Nemendur í 6. til 9. bekk í Hríseyjarskóla fóru á grunnskólamótið á Laugum. Við fórum í ferjuna klukkan 11 og skiptumst svo í tvo bíla. Á leiðinni á Laugar sóttum við tvo aukaliðsmen. Þegar við vorum mætt á Laugar klukkan 12:30 þá fengum við grjónagraut.

Eftir hádegismatinn þurftum við að drífa okkur að undirbúa okkur fyrir þrautabrautina. Við fundum okkur góð sæti efst uppi og gerðum okkar svæði frekar huggulegt. Ragna keppti í þrautabrautinni en Sonja bættist við því það vantaði einn annan keppanda. Síðan var smá bið, nokkrir fóru í sjoppuna eða hittu vini sína. Þá var komið að Dodgeball, krakkarnir voru í blönduðu liði með Patta, Jóni, Rögnu, Sonju, Önnu og Margréti og þau kepptu á móti strákaliðum. Þau töpuðu báðum leikjunum en þeim fannst þetta rosalega gaman. Við kepptum líka í körfubolta og blaki, okkur gekk vel í körfuboltanum unnum riðilinn okkar en töpuðum í undanúrslitum. Eftir það var hægt að fara frítt í sund í boði sundlaugarinnar, nokkrir nýttu sér það.

Eftir keppnina fengum við kjúklingaborgara og franskar og síðan var feluleikur um allan skólann. Þeir sem unnu feluleikinn fengu sleikjó. Svo var matsalnum breytt í dansgólf og það var ball, sumir voru á ballinu en hinir voru í lauginni sem er leikjasalur með pingpongi og tölvuleikjum. Ferðin var skemmtileg og mikið stuð á leiðinni heim.

 

Bryndís Petra, 6. bekk

Sonja Líf 9. bekk

Ferðaskrifstofan Hrísey ferðir

September þemað hjá okkur var sjálfbærni og landafræði og nemendur í 6.-9. bekk bjuggu til ferðaskrifstofu og héldu nafna- og merkjasamkeppni. Ferðaskrifstofan fékk nafnið Hrísey ferðir og allir völdu sér land til að fræðast um. Við  tengdum verkefnið í flest fög eins og íslensku, ensku, dönsku, UT, stærðfræði og fleira. Í íslensku gerðum við t.d. plaköt í ensku gerðum við meðal annars bæklinga um landið okkar og í UT gerðum við nafnspjöld og merki ferðaskrifstofurnar. Í stærðfræði skoðuðum við verð á flugi, gistingu og afþreyingu. Við gerðum tilboðspakka fyrir fjölskyldur og einstaklinga. Í lok þemans opnuðum við ferðaskrifstofuna miðvikudaginn 1. október í Fjarbúðinni klukkan 9. Hægt var að hringja eða mæta til að kynna sér starfsemi ferðaskrifstofunar og panta ferðir. Við seldum helling af ferðum og fengum mikið af pöntunum, og viðskiptavinir voru ánægðir með góð kjör og fjölbreyttar ferðir. Við lokuðum ferðaskrifstofunni klukkan 10 og pökkuðum saman. Okkur fannst vinnan við ferðaskrifstofuna skemmtilegt og áhugavert verkefni.

 

Johan Jörundur Rask, 6. bekk 

Patrekur Ingólfsson, 9. bekk

 

Grunnþáttalotur 2025-2026

Í Hríseyjarskóla er námið í öllum deildum skipulagt út frá grunnþáttum menntunar: læsi, sköpun, heilbrigði og velferð, sjálfbærni, jafnrétti og lýðræði og mannréttindum. Loturnar eru skipulagðar þannig að hver þeirra tekur fyrir ákveðin grunnþátt og tengir þau við bæði Barnasáttmála og heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna. Áhersla er lögð á virka þátttöku nemenda þar sem þeir fá tækifæri til að kanna og skilja hvernig grunnþættirnir, heimsmarkmiðin og réttindi barna tengjast þeirra daglega lífi.

Grunnþáttalotur 2025-2026

Skólaslit Hríseyjarskóla

Skólaslit fóru fram á sal skólans við fallega athöfn í gær. Þórunn flutti ræðu og allir nemendur og starfsmenn fengu vitnisburðarblöð og þakkir fyrir gott samstarf í vetur. Þá voru nemendur í 10. bekk kallaðir upp og þeir formlega útskrifaðir og þakkað fyrir samverustundir liðinna ára og óskað velfarnaðar í nýjum verkefnum. Þá var komið að útskrift skólahóps úr leikskóla en að þessu sinni var ein ung dama útskrifuð og sá Theodóra deildarstjóri leikskólans um það.

Eftir að Þórunn hafði sagt skólann slitið í 118. skiptið var opnuð vorsýning á verkum nemenda í þremur kennslustofum og foreldrafélagið bauð upp á grillaðar pylsur og hamborgara.

 

 

Uppfært skóladagatal

Athygli er vakin á uppfærðu skóladagatali. 

  • Lagt var til að árshátíðin verði færð frá 9. maí til laugardagsins 24. maí. Óskuðu kennarar eftir því til þess að nemendur fengu lengri undirbúningstíma. 
  • Við gerð síðasta skóladagatals var lagt upp með að fræðsluferð starfsfólk yrði í kringum vetrarfríið en það gekk ekki eftir. Ferðin færist til 23. – 27. apríl og því var lögð fram sú breyting að starfsdagurinn sem áætlaður var 10. mars færist til 23. apríl og starfsdagurinn sem settur var 30. maí færist til 25. apríl.

    Breytingarnar voru samþykktar í skólaráði og á fundi hjá Fræðslu- og lýðheilsusviði Akureyrarbæjar og taka gildi nú þegar. 

BREYTT skóladagatal 2024-25

Desember í Hríseyjarskóla

Það er margt spennandi framundan í skólastarfinu. Í desember hefst lotan gagnrýnin hugsun og auk þess verður jólabragur yfir skólastarfinu. Nemendur í 3. – 10. bekk ljúka síðustu lotu með rafrænum nemendakynningum og kynna hvað þau lærðu í síðustu lotu og setja sér markmið fyrir þá næstu.

Jólahefðirnar verða á sínum stað, búið er að mála gluggana og framundan eru jólahúfudagur, jólapeysdagur, jólaföndur, jólabakstur, jólagjöf til foreldra útbúin og skorið út í laufabrauð og málaðar piparkökur.

Skipulag Smábæjar er að sjálfsögðu komið hér á síðuna og að venju verður farin aðventuferð á Verbúðina þar sem börnin fá kakó og hafa það notalegt.

Litlu jólin verða 20. desember og tímasetning auglýst þegar nær dregur.

 

 

Skólaslit og framkvæmdir

Hríseyjarskóla var formlega slitið þann 31. maí og að venju fóru slitin fram á sal skólans. Tvær stúlkur útskrifuðust úr leikskólanum og 3 nemendur úr 10. bekk og óskum við þeim velfarnaðar á nýjum vettvangi í haust. Foreldrafélagið grillaði pylsur og bauð upp á kartöflusalat með og var stundin notaleg þrátt fyrir að tómlegt væri um að lístast.

Vegna framkvæmda hefur leikskólinn hefur verið fluttur tímabundið yfir í Hlein og sömuleiðis skrifstofa starfsfólks. Símanúmer beggja deilda eru ótengd, en hægt er að ná í skólastjóra í farsíma 891-7929 (Þórunn) og staðgengil skólastjóra í síma 694-1285 (Hrund) á milli klukkan 8 og 16 í júní.

 

 

« Older Entries