Skynjunarherbergi í leikskólanum
Í vor kom upp sú hugmynd í starfsmannahópnum að gera skynörvunarrými á leikskólanum. Ákveðið að taka hugmyndina lengra og unnið hefur verið að því síðan að þróa hugmyndina frekar. Nú á haustdögum var keypt motta og skynjunarróla og stefnt er að því að bæta smá saman við þangað til herbergið verður fullbúið. Markmiðið er að koma upp skynörvunarrými þar sem börnunum gefst kostur á því að örva skynfæri sín, prófa skynjun og upplifa þannig mismunandi áferð, mynstur, umbreytingu með það að leiðarljósi að líta inn á við. Skynjun getur verið á marga vegu, til að mynda snertiskynjun og sjónskynjun, skynjun í gegnum slökun og fleira, en unnið hefur verið með bæði núvitund og slökun undanfarin ár og verður skynjunarrýmið góð viðbót. Markmiðið er einnig að geta boðið börnunum upp á fleiri útfærslur hreyfanleika í gegnum upplifun og skynjun í rólegheitum. Þannig viljum við ýta undir núvitund barna og sýna þeim að það þarf ekki að vera asi og mikið tilstand í kringum það að eiga góða og uppbyggilega stund.