Sudburyvika
Þessa vikuna var okkar árlega Sudburyvika. Flestir nemendur okkar eru reynsluboltar í Sudburyvikum en nokkrir voru að stíga sín fyrstu skref og auka ábyrgð sína á eigin námi. Að venju gerðu eldri nemendur sína eigin stundatöflu fyrir vikuna, rökstuddu val á verkefnum og settu sér markmið (elstu tengdu líka við hæfniviðmið). Mikil vinna fór fram í vikunni, sumt gekk alveg smurt en annað krafðist mikillar einbeitningar og þrautseigju.
Sumir gleymdu að skila inn uppskriftum og innkaupalistum og þurftu því að gera breytingar á stundatöflu, aðrir voru í tæknibrasi en allt gekk þetta upp að lokum. Í tæknistofu var lært á 3D prentarann og urðu til ný 3D stykki, prentuð var mynd á bolla í Cricut vélinni okkar, nýr leikur var forritaður í Scratch og myndbönd klippt. Í eldhúsinu var búið til búst, eldaðar kjötbollur, bökuð peruterta og Subway kökur. Í listasmiðju voru málaðar myndir, saumað, föndrað og útbúin Barbie húsgögn og Barbie matur. Í hreyfistund var farið í hópeflisleiki, snúsnú, dansað, leikið og marserað. Einnig var farið í val á leikskóla, púslað, Osmo, stærðfræði, gerð veggspjöld og ritgerðir og tveir nemendur fóru úr húsi og unnu á vinnustöðum utan skólans.
Seinasta daginn voru kynningar nemenda þar sem þau gerðu upp sína viku. Fóru þau yfir hvað gekk upp og hvað ekki, sögðu frá því hvaða lærdóm þau draga af vikunni og sýndu afrakstur og myndir. Hér má sjá nokkrar myndir frá vikunni.
Hér má lesa meira um Sudburyvikur: https://hriseyjarskoli.is/sudbury-vikur/