Skólaþing
Haustfréttir Hríseyjarskóla
Nemendur í yngri deild tóku að sér umsjón með haustfréttatíma Hríseyjarskóla. Mikil vinna var lögð í verkið og nemendur lærðu heilmikið á öllu ferlinu, svo sem að sjá um handrit, æfingar, upptökur og enn fleiri upptökur. Eldri nemendur aðstoðuðu við klippingu og frágang.
Góða skemmtun.
Sjálfbærni, nýsköpun og tækni í Hríseyjarskóla
Við fengum ánægjulega heimsókn fimmtudaginn 1. september þar sem fráfarandi verkefnastjórn í Brothættra byggða verkefninu Hrísey, perla Eyjafjarðar afhenti Hríseyjarskóla styrk að upphæð 2.329.920 kr. fyrir verkefnið Sjálfbærni, nýsköpun og tækni í Hríseyjarskóla. Um var að ræða fjármuni sem ekki höfðu nýst í fyrri úthlutunum í verkefninu Hrísey, perla Eyjafjarðar.
Í stuttu máli snýst verkefnið um að auka þekkingu nemenda á ræktun matvæla og að efla námsframboð í upplýsingatækni með kaupum á fjölbreyttum og nýstárlegum tæknibúnaði.
Miðvikudaginn 12. október var gleðidagur en þá var sett niður hjá okkur 20m2 gróðurhús, svokallað Bambahús sem keypt var fyrir styrkinn. Bambar eru 1.000 lítra IBC vökva tankar úr plasti umvafðir járngrind. Bambarnir eru venjulega einnota, en í gegnum Bambahús er þessum tönkum gefið nýtt líf. Járngrindin utan um tankana er tekin í sundur og vökva tankarnir eru endurnýttir sem innvols í gróðurhúsið. Úr þessu verða létt og færanleg gróðurhús sem er hægt að setja hvar sem er þar sem er slétt undirlag. Eina aðkeypta efnið í gróðurhúsin eru klæðning, hurð og skrúfur.
Notkun gróðurhússins stuðlar að eflingu hringrásar hagkerfisins þar sem endurnýttar eru vökvaumbúðir sem annars væru fluttar úr landi og urðaðar.
Tilgangur hússins er að kenna nemendum sjálfbærni og ræktum og hvernig er hægt að minnka kolefnisspor. Hlökkum við mikið til að hefjast handa.
Það eru allir velkomnir til að kíkja á húsið og gefa okkur góð ráð varðandi ræktunina.
- Gleði í gróðurhúsi
- Nemendur að störfum
- Nemendur að störfum
- Nýja gróðurhúsið
Nánar má lesa um úthlutun styrksins á vef Byggðastofnunar:
https://www.byggdastofnun.is/is/frettir/category/1/bjart-yfir-hrisey-1
Skólabyrjun
Leikskólinn opnar aftur eftir sumarlokun mánudaginn 8. ágúst kl. 10.
Grunnskólinn verður settur mánudaginn 22. ágúst kl. 10 á sal skólans.
Grænfáninn í Hríseyjarskóla
Síðastliðinn föstudag 20. maí fékk Hríseyjarskóli afhentan Grænfánann í 6. skipti. Fulltrúar frá Landvernd heimsóttu skólann og afhentu okkur fánann, að þessu sinni fengum við ekki fána heldur skjöld sem festur verður á skólann. Í umsögn segir að skólastarfið sýni að unnið sé að menntun til sjálfbærni út frá mörgum vinklum og fjölmörg verkefni sem hafa verið unnin síðustu ár rýma mjög vel við grænfánastarfið.
Skólar á grænni grein, grænfánaverkefnið er alþjóðlegt umhverfismenntar verkefni sem rekið er af Landvernd á Íslandi. Markmið verkefnisins er að auka umhverfismennt, menntun til sjálfbærni og að styrkja umhverfisstefnur skóla. Verkefnið er stærsta umhverfismennta verkefni í heimi og er haldið úti af samtökum Foundation for Environmental Education.
Hollenskir nemendur frá Vlieland heimsækja Hríseyjarskóla
Hríseyjarskóli í samstarfi við Háskólann á Akureyri tekur þátt í Erasmus+ verkefninu Island Schools/ iSHRINK. Verkefninu er ætlað að koma á tengslum eyjaskóla í Evrópu og stuðla að samstarfi þeirra á milli um nýsköpun í menntun með áherslu á viðfangsefni tengd sjálfbærni.
Þessa önn hafa nemendur í 5.-10. bekk Hríseyjarskóla unnið verkefni með nemendum úr De Jutter skólanum á hollensku eyjunni Vlieland um plastmengun í hafi. Nemendur skólanna hafa unnið verkefni undanfarnar 8 vikur í gegnum netið en í þessari viku komu 13 hollenskir nemendur auk þriggja kennara til Hríseyjar þar sem nemendur skólanna hittust, unnu saman verkefni, kynntust hvoru öðru, skoðuðu Hrísey, kepptu í íþróttum, fóru í hvalaskoðun og skemmtu sér saman.
Á sama tími komu fulltrúar úr stjórn verkefninsins frá Grikklandi og Hollandi til Íslands. Þau heimsóttu Hrísey og funduðu um framhald verkefnisins í Háskólanum á Akureyri ásamt fulltrúum frá Skotlandi og Spáni sem voru í fjarfundi.
Fjallað var um verkefnið í 10 fréttum RÚV í gærkvöldi
https://www.ruv.is/sjonvarp/spila/tiufrettir/30763/9kjpeq (sjá mín 05:50)
Vefsíða verkefnisins:
https://www.islandschools.eu
Facebook síða verkefnisins:
https://www.facebook.com/islandschools
Umfjöllun um verkefnið á vef Háskólans á Akureyri:
https://www.unak.is/is/samfelagid/frettasafn/frett/ad-virkja-svaedisbundna-nyskopun-til-menntunar
Könnun um rusl og endurvinnslu

Krummaverkefni
Fyrir páska unnum við nemendur í 1. – 5. bekk verkefni um hrafninn. Við unnum í vinnubók, ræddum saman og fræddumst um þennan fallega fugl.
Við höfum verið að fylgjast með Hrafni og Hrefnu í BYKO á Selfossi. Hrefna var með sex egg og fimm eru búin að klekjast út. Þið getið fylgst með Hrafni og Hrefnu inn á https://byko.is/krummi við hlökkum til að sjá hvort þau komi aftur að ári.
Um hrafninn:
Hrafninn er staðfugl og dvelur á Íslandi allt árið. Hrafninn er stór fugl, vænghafið er 120 cm til 150 cm og lengdin um 64 cm þeir eru um 1.5 kg. Þeir gera hreiður sem er kallaður er laupur úr ýmsu drasli eins og vírum, spottum og bara nánast hverju sem er. Hrafninn verpir 4-6 eggjum sem eru grænblá.
Hrafnin getur verið árásargjarn, þeir eru alætur en finnst gott að borða fitu og kjöt.
Patrekur, 5. bekk og Anna Viola, 4. bekk
Barnasáttmálinn
Í síðustu viku unnu nemendur í unglingadeild verkefni um Barnasáttmála Sameinuðu Þjóðanna. Meðal annars var tekið var fyrir hvernig við getum komið í veg fyrir aukna barnaþrælkun í heiminum og hvernig við getum gert heiminn að betri stað fyrir börn. Verkefnin voru fjölbreytt og skemmtileg, 7. bekkur skoðaði hvernig aðstæður í Hrísey eru fyrir fatlaða. Nemendur í 8. – 10. bekk kynntu sér flóttamenn og hvernig það er að vera flóttamaður á Íslandi, hvernig við erum ábyrgir neytendur og hvernig við getum tryggt það að öll börn fái þá menntun sem þau vilja og þarfnast. Í lokinn gerðu allir sjálfsmat og skiluðu til kennara. Framundan er vinna yngri deildar með Barnasáttmálann og næsta vetur heldur vinnan áfram.
Heimir, 9. bekk.
Hér má finna allar upplýsingar um Barnasáttmálann.