Archive for Author Hrund Teitsdóttir

Lestrarátak í Hríseyjarskóla

Þessa dagana stendur yfir lestrarátak og taka allir nemendur og starfsfólk þátt auk þess sem foreldrar og íbúar eyjarinnar eru hvattir til lesturs.

 

Fyrirkomulagið er þanning að eftir hvern lesinn/hlustaðan klukkutíma má skrá nafn bókarinnar á miða og setja miðann í regnbogann. Sérstakir litir einkenna hvern hóp:

Gulur: yngri deild

Rauður: leikskólinn

Grænn: miðdeild

Blár: eldri deild

Fjólublár: starfsfólk

Appelsínugulur: foreldrar og þorpsbúar.

Lestrarátak

Niðurstöður skólaþingsins

Miðvikudaginn 18. október var haldið skólaþing í Hríseyjarskóla í þriðja sinn. Þingið fór fram með sama sniði og síðustu ár þ.e. skólastjóri setti þingið á sal skólans og fór lítillega yfir þróun kennsluhátta í Hríseyjarskóla frá 2016 til dagsins í dag. Síðan tóku nemendur við og sáu um umræður í tveimur hópum. Síðustu tvö árin hefur umræðuefnið beinst að skólanum, skólareglum og hvað einkenni góða skóla en að þessu sinni beindist umræðan að námsmenningu og því hvernig nemendur geti bætt sig sem námsmenn og hvernig foreldrar og nærsamfélagið geti stutt við bakið á þeim. Að umræðum loknum var aftur haldið fram á sal og kynntu hópstjórar og ritarar niðurstöður sinna hópa: 

 

  • Hvernig geta nemendur bætt sig sem námsmenn: nýta tímann sinn betur, fara eftir fyrirmælum, hlusta betur á kennarann, vanda framkomu sína, taka þátt í verkefnum og leggja sig fram í hópverkefnum. 
  • Hvernig geta foreldrar stutt við nemendur: með því að fylgjast betur með heimanámi, sýna því áhuga og styðja og hvetja til þess.
  • Hvernig getur nærsamfélagið komið að skólastarfinu: fá aðila inn til að fræða nemendur, nýta gesti úr Gamla skóla og samfélagið má taka meiri þátt í viðburðum á vegum skólans. Að kynningu lokinni var öllum þátttakendum boðið að taka könnun um fyrirkomulag og virkni á þinginu og síðan var boðið upp á vöfflukaffi, spjall og púsl. 

 

Nemendur stóðu sig vel og sérstakar þakkir fá hópstjórar og ritarar fyrir sitt framlag. Það er mikil þjálfun falin í því að taka að sér slík störf sem og að taka þátt í þinginu og koma sínum hugðarefnum og skoðunum á framfæri á viðeigandi hátt. 

Skynjunarherbergi í leikskólanum

Í vor kom upp sú hugmynd í starfsmannahópnum að gera skynörvunarrými á leikskólanum. Ákveðið að taka hugmyndina lengra og unnið hefur verið að því síðan að þróa hugmyndina frekar. Nú á haustdögum var keypt motta og skynjunarróla og stefnt er að því að bæta smá saman við þangað til herbergið verður fullbúið. Markmiðið er að koma upp skynörvunarrými þar sem börnunum gefst kostur á því að örva skynfæri sín, prófa skynjun og upplifa þannig mismunandi áferð, mynstur, umbreytingu með það að leiðarljósi að líta inn á við. Skynjun getur verið á marga vegu, til að mynda snertiskynjun og sjónskynjun, skynjun í gegnum slökun og fleira, en unnið hefur verið með bæði núvitund og slökun undanfarin ár og verður skynjunarrýmið góð viðbót. Markmiðið er einnig að geta boðið  börnunum upp á fleiri útfærslur hreyfanleika í gegnum upplifun og skynjun í rólegheitum. Þannig viljum við ýta undir núvitund barna og sýna þeim að það þarf ekki að vera asi og mikið tilstand í kringum það að eiga góða og uppbyggilega stund.

Skynjunarrými

Skólabyrjun haustið 2023

Leikskólinn opnaði aftur eftir sumarlokun þann 8. ágúst og fer starfið vel af stað.

Þriðjudaginn 22. ágúst verður grunnskólinn settur á sal skólans kl. 8:15 og samkvæmt hefð verða skólaleikar daginn eftir setningu og kennsla hefst því samkvæmt stundatöflu fimmtudaginn 24. ágúst.

« Older Entries Recent Entries »