Dagur mannréttinda barna var föstudaginn 20. nóvember og í tilefni dagsins skoðuðum við barnasáttmálann og nýja heimasíðu hans https://www.barnasattmali.is/ Nemendur gerðu einnig hárbönd sem eiga að fara til Gambíu í Afríku ásamt fötum á börnin sem saumaklúbbur hefur verið að sauma á þau. Með þessu vildum við sýna að hægt er að gera ýmislegt gagnlegt þó ekki sé um beinar peningagjafir að ræða.
Þann 8. nóvember er dagur gegn einelti en að þessu sinni lenti hann á sunnudegi og því fluttum við hann til mánudagsins 9. nóvember. Skólar eru hvattir til að standa fyrir fræðslu, viðburðum eða táknrænum atburðum sem hvetja til jákvæðra samskipta og efla vináttu og deila myndum á samfélagsmiðlum með myllumerkinu #dagurgegneinelti. Við í Hríseyjarskóla ræddum saman um hvað er einelti og fórum síðan út og mynduðum hring í kringum skólann okkar sem tákn samstöðu og vináttu.
Hugleiðsludagur unga fólksins verður haldinn á morgun 9. október og í ár var myndbandið tekið upp í samstarfi við Hríseyjarskóla. Markmið með deginum er að hvetja ungt fólk til að setjast niður og hugleiða til að auka innri vellíðan og stuðla að jákvæðum lífsvenjum fyrir framtíðina. ALLIR mega vera með í sínu hjarta þennan dag. Við þökkum Jógahjartanu kærlega fyrir samstarfið.
September hefur verið viðburðaríkur og skemmtilegur í Hríseyjarskóla. Vegna aðstæðna í samfélaginu höfum við verið í minni tengslum við foreldra og samfélagið en við myndum annars vilja, því var ákveðið að taka það helsta saman í um 5 mínútna fréttatíma. Nemendur í miðdeild höfðu umsjón með fréttatímanum.
Undanfarin ár hefur Hríseyjarskóli unnið að því að breyta kennsluháttum skólans með það að leiðarljósi að efla ábyrgð nemenda á sínu námi og undirbúa þau fyrir frekara nám og störf í framtíðinni. Nú hefur Leiðtogar í eigin námi fest sig í sessi og er orðinn eðlilegur hluti af skólastarfinu og því ákváðum við að búa til kynningarmyndband sem sýnir hvernig starfið er innan skólans. Myndbandið unnu nemendur og starfsfólk í sameiningu.
Nú hefur verið settur upp hjóla-/brettavöllur við Hríseyjarskóla. Miklar framkvæmdir voru á skólalóðinni í maí við jarðvegsskipti, malbikun og uppsetningu vallarins. Framkvæmdin var unnin í samstarfi við Hverfisráð Hríseyjar sem hefur fengið ráðstafað framkvæmdafé frá Akureyrarbæ undanfarin ár. Við hjá Hríseyjarskóla fögnum þessari framkvæmd og vonum að völlurinn nýtist vel jafnt íbúum sem gestum eyjarinnar. Jafnframt biðjum við alla að ganga vel um svæðið og nota viðeigandi hlífðarbúnað.
Þátttaka í hreyfiátaki Hríseyjarskóla og U.M.F. Narfa hefur verið mjög góð. Skráningar eru nú komnar yfir 200 og eins og myndirnar sýna er flestir sem hreyfa sig meira en hálftíma á dag. Ganga er langvinsælasta hreyfingin en gaman er að sjá hversu fjölbreytt hreyfing er skráð.
Hríseyjarskóli – heilslueflandi grunnskóli og Ungmennafélagið Narfi standa fyrir hreyfiátaki í Hrísey dagana 18. apríl til og með 15. maí.
Þátttakendur skrá nafn, dagsetningu ásamt tegund og tímalengd hreyfingar í þar til gert form á netinu. Leyfilegt er að skrá fleiri en eina hreyfingu á dag.
Í síðustu viku var Sudburyvika í Hríseyjarskóla og að vanda voru fjölbreytt verk sem nemendur völdu að vinna. Vinnan hófst á því að unnið var með lykilhæfni í hópum og var markmiðið að kafa betur í lykilhæfnina því nemendur tengja öll verkefnin sín í Sudburyvikum við lykilhæfni Menntamálastofnunnar. Undirbúningur fólst í því að hver og einn valdi verkefni, gerði drög að stundatöflu og mætti á fund með skólastjóra þar sem farið var yfir verkefnin, tilgang þeirra og undirbúning, hvernig aðstoð og aðstöðu hver og einn þyrfti. Verkefnin voru af ýmsum toga eins og sjá má á meðfylgjandi myndum. Dagbókarvinnan var á sínum stað eins og venjulega. Allir skrifuðu dagbók í lok hvers dags þar sem tekið var fram hvernig hvert verkefni gekk og hvað þau lærðu af því. Til að meta vinnuna í Sudburyvikunni fengu allir sent sjálfsmat til að svara og kennarar fóru yfir og gáfu síðan hverjum og einum umsögn. Ein spurningin var um það hvort nemendur vildu hafa aftur Sudburyviku og það vildu allir enda margir farnir að hugsa hvað þeir ætla að velja í Sudbury næsta haust.