Við fengum ánægjulega heimsókn fimmtudaginn 1. september þar sem fráfarandi verkefnastjórn í Brothættra byggða verkefninu Hrísey, perla Eyjafjarðar afhenti Hríseyjarskóla styrk að upphæð 2.329.920 kr. fyrir verkefnið Sjálfbærni, nýsköpun og tækni í Hríseyjarskóla. Um var að ræða fjármuni sem ekki höfðu nýst í fyrri úthlutunum í verkefninu Hrísey, perla Eyjafjarðar.
Í stuttu máli snýst verkefnið um að auka þekkingu nemenda á ræktun matvæla og að efla námsframboð í upplýsingatækni með kaupum á fjölbreyttum og nýstárlegum tæknibúnaði.
Miðvikudaginn 12. október var gleðidagur en þá var sett niður hjá okkur 20m2 gróðurhús, svokallað Bambahús sem keypt var fyrir styrkinn. Bambar eru 1.000 lítra IBC vökva tankar úr plasti umvafðir járngrind. Bambarnir eru venjulega einnota, en í gegnum Bambahús er þessum tönkum gefið nýtt líf. Járngrindin utan um tankana er tekin í sundur og vökva tankarnir eru endurnýttir sem innvols í gróðurhúsið. Úr þessu verða létt og færanleg gróðurhús sem er hægt að setja hvar sem er þar sem er slétt undirlag. Eina aðkeypta efnið í gróðurhúsin eru klæðning, hurð og skrúfur.
Notkun gróðurhússins stuðlar að eflingu hringrásar hagkerfisins þar sem endurnýttar eru vökvaumbúðir sem annars væru fluttar úr landi og urðaðar.
Tilgangur hússins er að kenna nemendum sjálfbærni og ræktum og hvernig er hægt að minnka kolefnisspor. Hlökkum við mikið til að hefjast handa.
Það eru allir velkomnir til að kíkja á húsið og gefa okkur góð ráð varðandi ræktunina.
Nánar má lesa um úthlutun styrksins á vef Byggðastofnunar:
https://www.byggdastofnun.is/is/frettir/category/1/bjart-yfir-hrisey-1