Archive for Author Þórunn Björg Arnórsdóttir

Grænfáninn í Hríseyjarskóla

Síðastliðinn föstudag 20. maí fékk Hríseyjarskóli afhentan Grænfánann í 6. skipti. Fulltrúar frá Landvernd heimsóttu skólann og afhentu okkur fánann, að þessu sinni fengum við ekki fána heldur skjöld sem festur verður á skólann. Í umsögn segir að skólastarfið sýni að unnið sé að menntun til sjálfbærni út frá mörgum vinklum og fjölmörg verkefni sem hafa verið unnin síðustu ár rýma mjög vel við grænfánastarfið.

Skólar á grænni grein, grænfánaverkefnið er alþjóðlegt umhverfismenntar verkefni sem rekið er af Landvernd á Íslandi. Markmið verkefnisins er að auka umhverfismennt, menntun til sjálfbærni og að styrkja umhverfisstefnur skóla. Verkefnið er stærsta umhverfismennta verkefni í heimi og er haldið úti af samtökum Foundation for Environmental Education.

 

Starfsdagur í grunn- og leikskólum Akureyrarbæjar mánudaginn 16. mars 2020

Eins og komið hefur fram í fjölmiðlum í dag hefur heilbrigðisráðherra ákveðið að virkja heimildir sóttvarnalaga sem fela m.a. í sér að skólahald verður takmarkað tímabundið. Nánari útfærslur verða unnar samkvæmt tilmælum stjórnvalda.

Í ljósi þessa hefur verið ákveðið að mánudaginn 16. mars verði starfsdagur í leik- og grunnskólum Akureyrarbæjar svo stjórnendur og starfólk geti skipulagt skólastarfið sem best á þessu tímabili sem takmörkunin nær til.

Viðbragðsáætlun við heimsfaraldri

Þar sem búið er að staðfesta COVID-19 smit á Íslandi viljum við benda á viðbragðsáætlun Hríseyjarskóla við heimsfaraldri, en hana má finna á heimasíðu skólans undir skólastarfið, áætlanir. Hægt er að fylgjast með gangi mála á vef Almannavarna og Landlæknis.

Viðbragðsáætlunina má finna hér

Plastlaus september

Hríseyjarskóli hefur unnið nokkur verkefni nú í september tengd plastlausum september. Við skoðuðum m.a. hvað getum við gert til að minnka notkun á plasti. Í framhaldi af því saumuðum við fjölnota ávaxta- og grænmetispoka og gáfum Hríseyjarbúðinni til notkunnar. Við saumuðum okkur einnig fjölnota samlokupoka til eigin nota.

Fjölnota samlokupokar.
Nemendur afhenda pokana í búðinni.

Útikennsla

Skólaárið fer vel af stað með hefðbundnum hætti. Skólaleikarnir voru á sínum stað með ýmsum leikjum, spurningakeppni og myndaratleik um þorpið. Nú er fyrstu lotunni lokið og var útikennsla á dagskrá ásamt sundkennslu. Eitt verkefnið í útikennslunni var að búa til myndir úr þeim efnivið sem fannst á skólalóðinni og ramma verkin inn með njóla. Nemendur unnu í pörum og höfðu frjálst val um myndefni. Hér má sjá afraksturinn.

Hundur
Eldfjall
Eldgos
Ugla
Tré

Sudburyvika í Hríseyjarskóla

Hríseyjar- og Grímseyjarskóli hafa unnið að sameiginlegu þróunarverkefni „Leiðtogar í eigin námi“ síðan 2016. Út frá þessu verkefni kviknaði hugmyndin að halda svokallaðar Sudbury vikur í skólunum sem er í  anda Sudbury Valley School í Bandaríkjunum en eftir þeirri hugmyndafræði er unnið í rúmlega 60 skólum víðsvegar um heiminn. Samkvæmt þeirri hugmyndafræði skipuleggja nemendur sitt eigið nám út frá sínum áhugamálum í eina viku, setja upp stundarskrá sem þau tengja við lykilhæfni aðalnámskrár. Þau þurfa einnig að finna leiðir til að leysa viðfangsefnin sem þeir völdu, taka lýðræðislegar ákvarðanir í félagi við starfsmenn skólanna og vinna á sínum forsendum. Núna stendur yfir fjórða Sudbury vikan og eru nemendur Grímseyjarskóla í Hrísey að þessu sinni og taka þátt í vikunni. Það sem er öðruvísi við þessa viku er að nú er henni skipt upp með helgi þ.e. tveir dagar í síðustu viku og þrír í þessari einnig máttu nemendur á unglingastigi mæta seinna á morgnana eða á milli 08.00 og 10.00 og vera þá lengur á daginn en enginn hefur nýtt sér þann kost.

Hér má sjá ýmis verkefni sem unnið er að í yfirstandandi Sudbury viku í skólanum. Búið er að tjalda á sal skólans og hýsir tjaldið slímverksmiðju og verslun, nuddstofa er upp á efri hæðinni, stúdíó í einni stofunni og heilmikil listsköpun í handmenntastofunni.  Frábært að sjá hvað krakkarnir eru að njóta sín og gera frábæra hluti.

Vélmenni

Í lok síðustu viku færði foreldrafélag Hríseyjarskóla skólanum að gjöf vélmennin Dash og Dot, leikskóladeildin fékk Beebot. Þetta er kærkomin gjöf sem kemur sér vel í upplýsingatækni og eru nemendur mjög ánægðirmeð tækin. Við þökkum kærlega fyrir góða gjöf.