Starfsdagur í grunn- og leikskólum Akureyrarbæjar mánudaginn 16. mars 2020

Eins og komið hefur fram í fjölmiðlum í dag hefur heilbrigðisráðherra ákveðið að virkja heimildir sóttvarnalaga sem fela m.a. í sér að skólahald verður takmarkað tímabundið. Nánari útfærslur verða unnar samkvæmt tilmælum stjórnvalda.

Í ljósi þessa hefur verið ákveðið að mánudaginn 16. mars verði starfsdagur í leik- og grunnskólum Akureyrarbæjar svo stjórnendur og starfólk geti skipulagt skólastarfið sem best á þessu tímabili sem takmörkunin nær til.

Viðbragðsáætlun við heimsfaraldri

Þar sem búið er að staðfesta COVID-19 smit á Íslandi viljum við benda á viðbragðsáætlun Hríseyjarskóla við heimsfaraldri, en hana má finna á heimasíðu skólans undir skólastarfið, áætlanir. Hægt er að fylgjast með gangi mála á vef Almannavarna og Landlæknis.

Viðbragðsáætlunina má finna hér

Sudburyvika

Í síðustu viku var Sudburyvika í Hríseyjarskóla og að vanda voru fjölbreytt verk sem nemendur völdu að vinna. Vinnan hófst á því að unnið var með lykilhæfni í hópum og var markmiðið að kafa betur í lykilhæfnina því nemendur tengja öll verkefnin sín í Sudburyvikum við lykilhæfni Menntamálastofnunnar. Undirbúningur fólst í því að hver og einn valdi verkefni, gerði drög að stundatöflu og mætti á fund með skólastjóra þar sem farið var yfir verkefnin, tilgang þeirra og undirbúning, hvernig aðstoð og aðstöðu hver og einn þyrfti. Verkefnin voru af ýmsum toga eins og sjá má á meðfylgjandi myndum. Dagbókarvinnan var á sínum stað eins og venjulega. Allir skrifuðu dagbók í lok hvers dags þar sem tekið var fram hvernig hvert verkefni gekk og hvað þau lærðu af því. Til að meta vinnuna í Sudburyvikunni fengu allir sent sjálfsmat til að svara og kennarar fóru yfir og gáfu síðan hverjum og einum umsögn. Ein spurningin var um það hvort nemendur vildu hafa aftur Sudburyviku og það vildu allir enda margir farnir að hugsa hvað þeir ætla að velja í Sudbury næsta haust.

Heilsueflandi grunnskóli

Hríseyjarskóli er nú kominn í hóp heilsueflandi grunnskóla á Íslandi. Helstu markmið heilsueflandi skóla eru að skapa skólaumhverfi sem stuðlar að andlegri, líkamlegri og félagslegri heilsu og vellíðan nemenda og starfsfólks í samvinnu við heimili og nærsamfélag. Óskað var eftir fólki í heilsunefnd og hefur nefndin nú hist tvisvar sinnum. Í nefndinni sitja skólastjóri, tveir nemendur, fulltrúi kennara, starfsmanna og foreldra sem og einn aðili úr nærsamfélaginu. Næstu skref nefndarinnar eru að búa til heilsustefnu þar sem horft er á allt skólasamfélagið í heild og kynna hana vel.
Fyrstu áhersluþættirnir sem við munum innleiða eru geðrækt, hreyfing/öryggi, lífsleikni og mataræði/ tannheilsa. Við munum taka þátt almennings íþróttaátökum og síðustu tvær vikurnar hafa nemendur og starfsfólk tekið þátt í lífshlaupinu, sem er skemmtilegt verkenfi á vegum ÍSÍ.

Lykilhæfni

Framundan er Sudburyvika og þar sem nemendur tengja sína vinnu við lykilhæfni þá var ákveðið að vinna með hana í dag. Allir hittust á sal og við ræddum um lykilhæfni, veltum orðinu fyrir okkur og lögðum línur að verkefninu. Síðan var skipt í þrjá hópa eftir aldri og sjálf vinnan hófst. Allir hóparnir fengu veggspjald með lykilhæfninni og vinnan fólst í að lesa, ræða um og skilgreina hvern þátt fyrir sig. Í hverjum hópi var ritari en skil voru með frjálsum hætti. Elstu nemendurnir völdu að skrifa texta og prenta, nemendur í 5. – 7. bekk völdu að gera hugtakakort í iPad og nemendur í 2. og 3. bekk völdu að skrifa á pappír og fengu síðan aðstoð við að koma textanum sínum í tövlu. Að lokum hittust allir á sal og hóparnir kynntu sínar niðurstöður. Þetta var mjög góð vinna og hengjum við verkefnin upp í stofunum og á salnum.

Dagur Leikskólans

Vöfflukaffi í leikskólanum

Fimmtudagurinn 6.febrúar 2020 var dagur leikskólans og var hann haldinn hátíðlegur hjá okkur hér í leikskóladeild Hríseyjarskóla, við buðum alla velkomna í vöfflukaffi klukkan 10:00 og var mjög ánægjulegt að sjá hvað margir gáfu sér tíma til að kíkja til okkar og fagna þessum degi með okkur. Hér var borðað og spjallað um daginn og veginn og allir nutu þess að sýna sig og sjá aðra, það er von okkar allra hér í skólanum kennara, nemenda og annars starfsfólks að allir hafi notið sín og að allir verði duglegir að gleðja okkur með nærveru sinni þennan merka dag um ókomin ár.

Takk kærlega fyrir okkur

                             Kveðja frá Hríseyjarskóla

Desember í Hríseyjarskóla

Að venju er margt um að vera í Hríseyjarskóla í desember. Nemendur máluðu jólamyndir í gluggana og Foreldrafélagið hélt árlegt jólaföndur þar sem nemendaráð seldi vöfflur og kakó. Búið er að skreyta skólann, fara í kakóferð á Verðbúðina 66, halda jólakvöldvöku og skera út í laufabrauð. Á leikskóladeildinni er líka búið að skreyta allt hátt og lágt, skrifa jólakortin og æfa jólalögin. Framundan er jólakortagerð og jólaþema auk litlu jólanna sem verða föstudaginn 20. desember. Nemendur eiga að mæta klukkan 9 á stofujól en gestir eru velkomnir klukkan 10, þá verður dansað í kringum jólatréð.

Niðurstöður úr könnun

Í tilefni að degi íslenskrar tungu héldu nemendur og starfsfólk Hríseyjarskóla hádegisboð í Íþróttamiðstöðinni. Dagskráin í ár var með öðru sniði en undanfarin ár en í þetta sinn var gestum boðið á tæknikynningu þar sem nemendur kynntu smáforrit sem notuð eru í kennslu við skólann. Fyrirkomulagið var þannig að nemendur höfðu valdið sér eitt smáforrit og útbjuggu kynningar og settu upp bása. Gestirnir gengu á milli bása og hlustuðu á kynningarnar, skoðuðu og fengu að prófa. Á tveggja mínútna fresti hringdi klukka og þá skiptu gestir um bása en nemendur héldu áfram að kynna sitt smáforrit fyrir næsta hóp. Kynningarnar gengu vel og stóðu allir nemendur sig vel og gaman var að sjá hve ánægðir gestirnir voru. Að loknum kynningum var gestum boðið upp á súpu að hætti Helenu og var það von okkar að allir væru saddir og sælir.

Þar sem um nýjung var að ræða var ákveðið að útbúa rafræna könnun til að meta hvernig til tókst. Gestir voru beðnir um að svara nokkrum spurningum og eins og sjá má á niðurstöðunum voru gestir ánægðir með þetta fyrirkomulag.

Alþjóðlegur dagur barna

Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna var 30 ára í gær, 20. nóvember, og því var þessi dagur á alþjóðavísu tileinkaður réttindum barna. Í tilefni þess var farið yfir barnasáttmálann með nemendum á sal og síðan haldið nemendaþing. Nemendum var skipt þvert á aldur í fjóra hópa og fengu allir hóparnir sama spurningalistann til að ræða um og svara. Hver hópur var með hópstjóra og ritara og gaman var að sjá hversu áhugasamir allir voru við vinnuna. Að lokum hittust allir hóparnir á sal og gerðu grein fyrir sínum niðurstöðum. Í Hríseyjarskóla leggjum við mikið upp úr því að raddir barna og ungmenna heyrist og tókum því þessu verkefni fagnandi.

« Older Entries Recent Entries »