Sudburyvika í Hríseyjarskóla

Hríseyjar- og Grímseyjarskóli hafa unnið að sameiginlegu þróunarverkefni „Leiðtogar í eigin námi“ síðan 2016. Út frá þessu verkefni kviknaði hugmyndin að halda svokallaðar Sudbury vikur í skólunum sem er í  anda Sudbury Valley School í Bandaríkjunum en eftir þeirri hugmyndafræði er unnið í rúmlega 60 skólum víðsvegar um heiminn. Samkvæmt þeirri hugmyndafræði skipuleggja nemendur sitt eigið nám út frá sínum áhugamálum í eina viku, setja upp stundarskrá sem þau tengja við lykilhæfni aðalnámskrár. Þau þurfa einnig að finna leiðir til að leysa viðfangsefnin sem þeir völdu, taka lýðræðislegar ákvarðanir í félagi við starfsmenn skólanna og vinna á sínum forsendum. Núna stendur yfir fjórða Sudbury vikan og eru nemendur Grímseyjarskóla í Hrísey að þessu sinni og taka þátt í vikunni. Það sem er öðruvísi við þessa viku er að nú er henni skipt upp með helgi þ.e. tveir dagar í síðustu viku og þrír í þessari einnig máttu nemendur á unglingastigi mæta seinna á morgnana eða á milli 08.00 og 10.00 og vera þá lengur á daginn en enginn hefur nýtt sér þann kost.

Hér má sjá ýmis verkefni sem unnið er að í yfirstandandi Sudbury viku í skólanum. Búið er að tjalda á sal skólans og hýsir tjaldið slímverksmiðju og verslun, nuddstofa er upp á efri hæðinni, stúdíó í einni stofunni og heilmikil listsköpun í handmenntastofunni.  Frábært að sjá hvað krakkarnir eru að njóta sín og gera frábæra hluti.

Við í Hríseyjarskóla fengum til okkar góðan gest í dag

Listakonan Amanda Maciel Antunes sem dvelur í Gamla – Skóla kom og heilsaði uppá nemendur í hreyfi-stundar tímanum í dag. Hún fékk þau með sér í skemmtilegt verkefni sem hún kallar „Exquisite Corpse„, sem er eins konar framhalds mynd. Hún skipti nemendum í 3 hópa og fékk hver hópur að teikna og lita einn part af veru sem þau fengu að ráða hvernig liti út. Afrakstur verkefnisins voru þrjár furðuverur sem við komum fyrir uppá vegg í holinu í skólanum. Nemendur skemmtu sér vel við þessa vinnu og mun hún kíkja aftur við næsta þriðjudag með nýtt verkefni. Við bíðum spennt eftir því.

Leikskóli

Skemmtileg uppákoma í leikskólanum, krakkarnir fundu könguló á gólfinu og gerðu hana að gæludýrinu sínu í ca eina klukkustund. Hún fékk að sjálfsögðu nafnið Kalli litli og vakti hún mikla lukku, hún fékk að fara í barbie, aka um á bíl. fljúga á bréfaskutlu og leika  með risaeðlunum. Hennar líf var nú ekki ýkja langt og var frekar mikil sorg þegar að hún lést……..

Vélmenni

Í lok síðustu viku færði foreldrafélag Hríseyjarskóla skólanum að gjöf vélmennin Dash og Dot, leikskóladeildin fékk Beebot. Þetta er kærkomin gjöf sem kemur sér vel í upplýsingatækni og eru nemendur mjög ánægðirmeð tækin. Við þökkum kærlega fyrir góða gjöf.

Recent Entries »